Hoppa yfir valmynd

03.05.2023

60 Minutes fjallar um kolefnisbindingu Carbfix

Fjallað var um aðferð Carbfix til kolefnisbindingar í 60 Minutes, vinsælasta fréttaþætti Bandaríkjanna, á CBS sjónvarpsstöðinni síðastliðinn sunnudag.

Áhersla þáttarins var á lofthreinsun á CO2 (e. direct air capture), þ.e. föngun þess beint úr andrúmslofti, en bandarísk stjórnvöld leggja um þessar mundir áherslu á að styðja við innleiðingu þeirrar tækni.

Svissneska fyrirtækið Climeworks hóf rekstur á Orca, stærstu lofthreinsistöð heims, skammt frá Hellisheiðarvirkjun haustið 2021. Framkvæmdir eru hafnar við nýja stöð fyrirtækisins á sama stað sem mun margfalda uppsett afköst, sem verða þá allt að 40 þúsund tonn af CO2 á ári. Binding þess í jörðu er á vegum Carbfix.

Carbfix hefur frá árinu 2012 bundið CO2 úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar í bergi neðanjarðar, alls um 90 þúsund tonn. Frá því að lofthreinsistöð Climeworks hóf rekstur hefur Carbfix einnig tekið við CO2 þaðan og bundið það með sömu aðferð.

Bill Whitaker, fréttamaður 60 Minutes heimsótti Hellisheiði þar sem Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir hjá Carbfix útskýrði tæknina fyrir áhorfendum.

 Í þættinum lögðu fulltrúar Carbfix áherslu á að föngun og binding kolefnis mætti ekki verða afsökun til að hægja á aðgerðum sem miða að því að minnka brennslu jarðefnaeldsneytis. Hins vegar myndu loftslagsmarkmiðin ekki nást nema kolefnisföngun og -binding í stórum stíl kæmu til viðbótar öðrum aðgerðum.

 „Þetta er stærsta áskorun okkar kynslóðar. Við þurfum stórar lausnir. Við þurfum að skila kolefninu aftur á sinn stað, ofan í jörðina,“ sagði Kári Helgason hjá Carbfix í viðtali við Bill Whitaker.

Í þættinum voru einnig nefnd áform Carbfix um Coda Terminal, eða Sódastöðina, stærsta einstaka loftslagsverkefni á Íslandi, sem gengur út á að reisa miðstöð fyrir móttöku og bindingu CO2 í Straumsvík í Hafnarfirði. Markmiðið þar er að binda árlega 3 milljónir tonna, sem er meira en allur iðnaður á Íslandi losar samanlagt. Það kæmi bæði frá Evrópu og álverinu í Straumsvík og mögulega öðrum innlendum iðnaði.

Horfa má á umfjöllun 60 Minutes í heild sinni hér:

https://www.cbsnews.com/news/climate-advocates-on-direct-air-capture-60-minutes-transcript-2023-04-30/

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.