Hoppa yfir valmynd

19.05.2021

Áhugasamur um Carbfix-tæknina

Það var nokkuð létt yfir Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar hann mætti í Hellisheiðarvirkjun ON um kaffileytið í dag. Bjarni Bjarnason forstjóri OR tók á móti Blinken, kynnti honum jarðhitanýtinguna og ekki síst Carbfix-tæknina sem hann reyndist mjög áhugasamur um.

Bjarni Bjarnason forstjóri OR tekur á móti Blinken við Hellisheiðarvirkjun. ©Atli Már Hafsteinsson

Þá var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra einnig viðstaddur heimsóknina ásamt Höllu Hrund Logadóttur, sem tekur við starfi orkumálastjóra á næstu dögum. Þær Hildigunnur Thorsteinsson stjórnarformaður Orku náttúrunnar og Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdarstýra Carbfix ræddu einnig við ráðherrann.

Blinken var mjög áhugasamur um Carbfix-tæknina og sagði m.a. að honum fyndist mikilvægt á þessum tímum að vita að tæknin væri til – það gæfi okkur von.

Þá spurði hann hvað stæði í vegi fyrir því að tækninni yrði beitt á stærri skala og hversu útbreitt basalt væri í heiminum. Blinken velti einnig fyrir sér hvort niðurdæling með þessum hætti hefði í för með sér einhverjar aukaverkanir.

Bjarni Bjarnason forstjóri OR ræddi um jarðhitann við Blinken sem sagðist nokkuð fróður í þeim efnum enda nýtir hann hita jarðar til að kynda húsið sitt með svokallaðri varmadælutækni.

Margir erlendir fjölmiðlamenn voru með í för auk fulltrúa íslenskra fjölmiðla.

Eftir stutta kynningu á Jarðhitasýningu ON fór Edda Sif með ráðherrana tvo á niðurdælingasvæði Carbfix fyrir koldíoxíð og kíktu þau inn í eitt af hinum sérkennandi borholukúluhúsum á virkjanasvæðinu. Þar áttu þeir Guðlaugur og Blinken gott spjall við Eddu Sif og var slegið á létta strengi.

Þeir Guðlaugur Þór og Blinken fengu að lokum gjöf frá OR, borkjarna með CO2 holufyllingum sem Carbfix aðferðin hefur steinrennt.

Þá var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra einnig viðstaddur heimsóknina ásamt Höllu Hrund Logadóttur, sem tekur við starfi orkumálastjóra á næstu dögum. Þær Hildigunnur Thorsteinsson stjórnarformaður Orku náttúrunnar og Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdarstýra Carbfix ræddu einnig við ráðherrann.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.