Hoppa yfir valmynd

20.06.2023

Borholur tilbúnar fyrir fyrstu sjótilraunir Carbfix

Mælingar hafnar á grunnástandi og færanleg niðurdælingarstöð komin upp

Carbfix lauk nýlega borun á öllum borholum í Helguvík sem þarf til að hefja þar tímamótatilraun fyrirtækisins með að nýta sjó til steinrenningar á CO2 neðanjarðar. Ný færanleg niðurdælingarstöð Carbfix, sú fyrsta sinnar tegundar, er einnig komin upp, og mælingar á grunnástandi bergsins neðanjarðar eru hafnar á vegum sérfræðinga frá ETH háskólanum í Zurich í samstarfi við Carbfix. Tilraunaniðurdælingin hefst síðar í sumar.

 

Eykur möguleika Carbfix tækninnar

Ljóst er að það mun auka verulega möguleika Carbfix-tækninnar víða um heim að geta nýtt sjó í stað vatns til að flytja CO2 ofan í jörðina. Háskóli Íslands og Carbfix hafa þegar sýnt fram á það á tilraunastofu að þetta er hægt, en nú verður það prófað í fyrsta sinn við raunverulegar aðstæður.

 

Víðtækt samstarf

Verkefnið nefnist Sæberg og er samstarfsverkefni Carbfix og ETH í Zurich, Háskóla Íslands, ÍSOR, háskólanna í Genf og Lausanne og Univeristy College í London. Það er styrkt af Eurostars, Rannís, og orku- og umhverfisskrifstofum svissneskra yfirvalda. Reykjanesbær er þátttakandi í verkefninu með því að veita Carbfix aðstöðu í Helguvík.

 

Sæberg er hluti af stærra þróunarverkefni, DemoUpCARMA, sem er leitt af ETH Zurich og gengur út á að prófa og þróa nokkrar mismunandi lausnir til að fanga, nýta, flytja og binda CO2 frá Sviss, ýmist til að ná fram neikvæðri losun eða draga úr henni með föngun frá iðnaði.

Mynd: Martin Voigt (t.h.) og Sif Pétursdóttir frá Carbfix og Alba Simona Zappone frá ETH (t.v.) á tilraunasvæðinu í Helguvík.

Föngun og binding þvert yfir landamæri

Ein þeirra leiða sem prófaðar eru undir merkjum DemoUpCARMA er að fanga CO2 í Sviss og flytja það til Íslands til varanlegrar bindingar í jarðlögum með Carbfix-aðferðinni. Carbfix hefur þegar tekið við nokkrum gámum af CO2 frá Sviss og dælt því niður á Hellisheiði, þar sem Carbfix hefur bundið CO2 í jörðu í meira en áratug. Þegar tilraunaniðurdælingin í Helguvík hefst verður CO2 frá Sviss nýtt þar. Um er að ræða tímabundið tilraunaverkefni og til stendur að dæla niður allt að 1.000 tonnum af CO2 á 12 mánuðum.

Niðurdælingin sem Carbfix hefur þegar framkvæmt á CO2 frá Sviss er – eftir því sem næst verður komist – í fyrsta sinn í heiminum sem CO2 er flutt á milli landa til niðurdælingar. Fyrirsjáanlegt er að slíkir flutningar aukist mjög á næstu árum. Þeir eru enda nauðsynlegir til að ná loftslagsmarkmiðum heimsins, þar sem ljóst er að ekki verður alls staðar hægt að binda CO2 nálægt uppsprettu þess.

Mynd: Salka Kolbeinsdóttir við niðurdælingarholu Carbfix í Helguvík. 

Mælingar hafnar á grunnástandi

Borholurnar sem Carbfix hefur borað þjóna þrenns konar tilgangi: ein er til niðurdælingar, ein til sjótöku og þrjár til mælinga svo staðfesta megi að streinrenning hafi átt sér stað.

 Vísindamenn frá ETH Zurich munu sjá um jarðeðlismælingar og er það í fyrsta sinn sem slíkum mælingum er beitt til að staðfesta steinrenningu. Um er að ræða bæði hljóðbylgjumælingar og radarmælingar til að kortleggja berggrunninn fyrir og eftir niðurdælingu. Mælingar á grunnástandi eru hafnar og þess er vænst að frávik frá þeim muni staðfesta steinrenningu.

 Carbfix mun annast niðurdælingu í basaltjarðlög og einnig rannsaka afdrif CO2 með hefðbundnum efnafræðimælingum, sem hingað til hefur verið beitt til að staðfesta árangur Carbfix tækninnar.

 

Myndatextar: Starfsfólk Carbfix og ETH á tilraunasvæðinu í Helguvík.

Meðfylgjandi myndir: frá Carbfix.

Nánar um Carbfix:
Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur síðan 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Coda Terminal verkefni Carbfix, eða „Sódastöðin“, hlaut 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og miðar að því að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík. Nánari upplýsingar um fyrirtækið, tækni þess og verkefni má finna á carbfix.com.

Nánari upplýsingar:

Ólafur Teitur Guðnason, yfirmaður samskipta

olafurtg@carbfix.com // s. 856 3535

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.