Hoppa yfir valmynd

29.03.2021

Carbfix fargar koldíoxíði frá SORPU

Stefnt á útgáfu kolefniseininga

Í sumar hefja Carbfix og SORPA tilraunir við að farga koldíoxíð (CO2) sem losnar frá urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Með þessu er stefnt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 3.500 tonn af CO2 á fyrstu stigum og um allt að 7.500 tonn á ári þegar tilraunafasa lýkur. Samhliða niðurdælingu á CO2 verður þróuð aðferðafræði til að gefa út kolefniseiningar til kolefnisjöfnunar með Carbfix aðferðinni.

SORPA er lykilfyrirtæki í innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Með bættri meðhöndlun úrgangs og gangsetningu gas- og gasgerðarstöðvar SORPU, GAJU, eru stigin stærstu skref í loftslagsmálum á höfuðborgarsvæðinu frá því að kolum var skipt út fyrir heitt vatn til húshitunar. „Með því að hætta að urða úrgang og vinna moltu og metangas úr lífúrgangi drögum við verulega úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda Íslands. Þetta samstarfsverkefni gerir okkur kleift að minnka okkar kolefnisspor enn frekar,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU.

Mikilvægur prófsteinn fyrir útbreiðslu Carbfix tækninnar

Verkefnið á Álfsnesi er mikilvægur prófsteinn fyrir aðlögun og þróun Carbfix aðferðarinnar að ólíkum orku- og iðnaðarferlum. Þá verður CO2 í fyrsta sinn dælt niður í eldra og þéttara berg en finnst í nágrenni jarðhitasvæða. Niðurdælingin mun því gefa mikilvægar vísbendingar um fýsileika þess að beita aðferðinni víðar. „Carbfix aðferðin er umhverfisvæn og hagkvæm tæknilausn sem byggir á vísindalegum grunni og leiðir til hraðrar og varanlegrar bindingar á CO2. Uppbygging slíkra lausna á stórum skala er forsenda þess að loftslagsmarkmið náist.  “ segir Edda Sif Aradóttir , framkvæmdastýra Carbfix, en Carbfix aðferðin felst í því að leysa CO2 upp í vatni sem er dælt niður í berg. Þar breytist CO2 í stein á innan við tveimur árum.

Stefnt að útgáfu alþjóðlega viðurkenndra kolefniseininga

Verkefnið er umfangsmikið samstarfsverkefni en auk Carbfix og SORPU koma GeoEnergy og vottunarstofan iCert að verkefninu. Hlutur iCert snýr að því að þróa aðferðafræði, í samvinnu við Carbfix og SORPU, svo verkefnið uppfylli skilyrði til útgáfu alþjóðlega viðurkenndra kolefniseininga til kolefnisjöfnunar. Þannig verði  unnt að gefa út skráðar, rekjanlegar og vottaðar kolefniseiningar en slíkt hefur ekki verið gert áður á Íslandi. Markmiðið með þessu er jafnframt að sala þeirra geti staðið undir hluta af kostnaði við verkefnið. „Hingað til hafa innlend loftslagsverkefni og kolefnisjöfnun ekki verið unnin í samræmi við alþjóðlegar venjur þar sem losun og jöfnun fer saman í tíma. Með sölu kolefniseininganna á alþjóðlegum mörkuðum munum við sýna fram á að öflug loftslagsverkefni, sem stuðla m.a. að því að Ísland nái markmiðum sínum undir Parísarsamningnum, geti einnig verið arðbær viðskipti“ segir Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri iCert.

Verkefnið er samstarfsverkefni vottunarstofunnar iCert sem er faggilt vottunarstofa og hefur skapað sér sérstöðu hér á landi í þekkingu á loftslagsverkefnum og kolefnismörkuðum, Carbfix sem sérhæfir sig í niðurdælingu og förgun á CO2, Sorpu sem sér um söfnun og meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu, og GeoEnergy sem sér um hönnun og ráðgjöf við  niðurdælingakerfi. . Verkefnið hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði RANNÍS.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.