Hoppa yfir valmynd

25.11.2022

Carbfix í stærra samhengi

Ísland markar sér verðmæta sérstöðu á alþjóðavettvangi með því að vera í fararbroddi grænnar nýsköpunar í þágu einnar stærstu áskorunar mannkyns.

Tíu ár eru frá því að Carbfix hóf tilraunir með að binda CO2 í jarðlögum á Hellisheiði, eða á einföldu máli: að breyta því í stein neðanjarðar. Síðan þá höfum við bundið yfir 80 þúsund tonn af CO2 úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Frá því í fyrra höfum við einnig bundið CO2 sem svissneska fyrirtækið Climeworks fangar úr andrúmsloftinu. Aðferð okkar til bindingar er umhverfisvæn, varanleg og ein sú hagkvæmasta sem þekkist.

Við vinnum nú að því í samstarfi við Orku náttúrunnar að þrefalda bindingu á CO2 útblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Til þess fengum við um 600 milljóna króna styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópu, en hann er fjármagnaður með tekjum af sölu losunarkvóta í samevrópska ETS-kerfinu til iðnfyrirtækja sem valda næstum helmingi af allri losun álfunnar. Einnig er í undirbúningi að binda útblástur frá Nesjavöllum í samvinnu við ON og Þeistareykjavirkjun í samvinnu við Landsvirkjun.

Stærsta loftslagsverkefnið til þessa

Til viðbótar eigum við í samstarfi við stóriðjuna á Íslandi um að leita leiða til að binda útblástur frá fyrirtækjum þeirra. Í Straumsvík ætlar Carbfix að reisa stóra móttöku- og förgunarstöð fyrir CO2, Coda Terminal, með bindigetu upp á 3 milljónir tonna á ári. Það er um 50% meira af CO2 en allur iðnaður á Íslandi losar samanlagt. Því mun bróðurpartur starfseminnar felast í að taka á móti CO2 frá iðnaði í Evrópu, en Rio Tinto mun einnig freista þess að fanga útblástur frá álverinu sem Coda Terminal gæti bundið. Annar íslenskur iðnaður, meðal annars á svæðinu, gæti auðvitað gert hið sama.

Þess vegna Ísland

Sum spyrja hvers vegna binda ætti CO2 frá öðrum löndum á Íslandi og finnst jafnvel að það sé okkur óviðkomandi. Svörin við þessu eru margvísleg og höfða ábyggilega missterkt til fólks eftir gildismati og forgangsröðun hvers og eins.

Í fyrsta lagi eru hér kjöraðstæður hvað varðar jarðlög og fleira til að nýta íslenskt hugvit til stórfelldrar bindingar á magni sem er langt umfram innanlandsframboð á CO2

Hvað varðar samhengið við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum þá eru þær að verulegu leyti samevrópskar skuldbindingar, ekki síst hvað varðar ETS-kerfið, þannig að okkar markmið eru hluti af markmiðum Evrópu í stærra samhengi. Það er einmitt ein af forsendum þess að Nýsköpunarsjóður Evrópu, sem er fjármagnaður af ETS-kerfinu eins og áður segir, ákvað að styrkja Coda Terminal verkefnið um 16 milljarða króna.

Efnahagslegur ávinningur

Efnahagslegur ávinningur er verulegur: tugmilljarða uppbygging innviða og hugverkaiðnaðar og síðan störf, gjaldeyristekjur, hagvöxtur og skatttekjur.

Ísland markar sér verðmæta sérstöðu á alþjóðavettvangi með því að vera í fararbroddi grænnar nýsköpunar í þágu einnar stærstu áskorunar mannkyns. Og vandinn stendur okkur nærri því norðurheimskautið hlýnar hraðar en heimurinn að meðaltali, með tilheyrandi áhrifum á lífríki og náttúru.

Þá má auðvitað segja að loftslagsverkefni af þessari stærðargráðu sé í eðli sínu fagnaðarefni nema í ljós komi að það hafi einhver óþekkt neikvæð umhverfisáhrif í för með sér, sem ekkert bendir til. Þess má geta að sjónræn áhrif af verkefninu verða tiltölulega lítil.

Loks er í siðferðilegu samhengi ekki fráleitt að horfa á kolefnisspor Íslands frá neyslusjónarmiði, fremur en framleiðslusjónarmiði eins og gert er í hefðbundnu loftslagsbókhaldi. Framleiðslan á því gífurlega magni af vörum sem við flytjum inn frá útlöndum er hvergi skráð á ábyrgð Íslands, þó að vörurnar séu sannarlega framleiddar í okkur þágu og fyrir okkur. Þessa staðreynd má hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur hvað við getum gert til að stemma stigu við loftslagsvandanum.

Byrjað á heimavelli

Fræðileg bindigeta jarðlaga á Íslandi með Carbfix-aðferðinni skiptir þúsundum milljörðum tonna af CO2. Ekki stendur hins vegar til að nýta nema agnarlítið brot af því. Hvorki Carbfix né Ísland munu leysa loftslagsvanda heimsins. En við viljum gera eins mikið og við mögulega getum, fyrst hér á Íslandi, á heimavellinum sem við þekkjum best, og síðan með því að hasla Carbfix-tækninni völl í öðrum löndum, þar sem er svo sannarlega mikill áhugi á henni. Við Íslendingar njótum góðs af alls kyns erlendum tæknilausnum í okkar loftslagsaðgerðum, en við höfum líka margt að bjóða öðrum.

Það er vissulega klisja að segja að við séum öll í sama báti. Og núningurinn á milli heimshluta sem einkenndi nýafstaðna loftslagsráðstefnu S.Þ. sýnir að við erum það ekki að öllu leyti. En gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftinu virða engin landamæri og því eru það á endanum sameiginlegir hagsmunir allra að það takist að hemja hlýnun þess. Samstarf þvert á landamæri er algjör forsenda þess.

Markmiðið um að takmarka hlýnun við 1,5 gráður hangir nú á bláþræði og mun ekki nást án þess að lagst verði á árarnar með öllum raunhæfum lausnum. Áframhaldandi þróun og innleiðing Carbfix-aðferðarinnar er eitt af tækifærum Íslands til að vera þar í fararbroddi.

Höfundur: Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

Grein birtist í Fréttablaðinu 25 nóvember 2022

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.