Hoppa yfir valmynd

11.05.2021

Carbfix í The Times

Fjallað var um Carbfix í vísindadálki TIMES, laugardaginn 8. maí síðastliðinn, en þar útskýrir vísindaritstjórinn Tom Whipple Carbfix tæknina og vitnar meðal annars í Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix.

,,Til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir 2050 þá sé nauðsynlegt að þróa leiðir til að fanga og farga koldíoxíði sem óhjákvæmilega losnar í sumum tegundum iðnaðar.'' 

Whipple útskýrir að til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir 2050 þá sé nauðsynlegt að þróa leiðir til að fanga og farga koldíoxíði sem óhjákvæmilega losnar í sumum tegundum iðnaðar. 

Í greininni er m.a. sagt að Carbfix sé hluti af sýningunni Framtíð plánetunnar okkar sem stendur nú yfir í Vísindasafninu í London en þar er hægt að sjá borkjarna úr íslensku basalti sem sýnir kalsítsteindir eins og verða til í Carbfix ferlinu. „Áður var talað um loftslagslækningar sem sem hálf fáránlegar aðgerðir, síðar var slík tækni litin hornauga því hún var álitin eins konar syndaaflausn fyrir olíuiðnaðinn,“ segir Roger Highfield, stjórnandi Vísindasafnsins. „Mér finnst heillandi að við erum nú komin á þennan stað.“

Whipple vitnar einnig í Prófessor Sir David King, stofnanda Centre for Climate Repair við Cambridge háskóla sem segir að sá tími sem litið var á kolefnisföngun sem afsökun til að halda áfram óbreyttum venjum séu liðnir „Bæði förgun og öflugur samdráttur í losun eru algjörlega nauðsynlegar.“ 

Leiðrétting varðandi kostnað:


Carbfix vill leiðrétta ákveðinn misskilning sem gætir í greininni en þar er talað um að kostnaður við kolefnisförgun í stein sé enn afar dýr. Við gerum hins vegar ráð fyrir að kostnaður per tonn af CO2 verði aðeins á milli 9-16 evrur en til samanburðar er núverandi verð á ETS heimildum 44 evrur á hvert tonn. Ef tekinn er saman kostnaður við að flytja koltvísýringin hingað til lands með vistvænu skipi og farga honum með Carbfix aðferðinni í Coda Terminal kolefnisförgunarstöðinni sem nú er í undirbúningi þá verður kostnaðurinn á bilinu 29-66 evrur per tonn af CO2

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.