25.05.2023
Carbfix og Removr í samstarf um lofthreinsun og kolefnisbindingu
Carbfix og norska fyrirtækið Removr, sem hefur þróað tækni til að fanga CO2 úr andrúmslofti (e. Direct Air Capture), hafa gert með sér forsamkomulag (e. Heads of Terms) sem miðar að því að Carbfix bindi CO2 frá lofthreinsistöð sem Removr áformar að byggja á Íslandi.
Árleg afkastageta hennar yrði um 100.000 tonn af CO2, sem yrði bundið varanlega í bergi með Carbfix aðferðinni. Um er að ræða fyrstu stóru lofthreinsistöð Removr og standa vonir til að hún geti tekið til starfa árið 2027.
Removr hyggst í fyrstu byggja minni lofthreinsistöð hér á landi sem gæti tekið til starfa árið 2025 með 2.000 tonna árlega afkastagetu. Nýta á reynsluna af rekstri hennar til að bæta orkunýtni og lækka kostnað áður en ráðist verður í stærri áfanga. Valkostir varðandi staðsetningu stöðvanna eru til skoðunar.
Lofthreinsistöð Removr mun þjónusta fyrirtæki sem vilja hreinsa CO2 úr andrúmsloftinu til að ná markmiðum sínum um kolefnishlutleysi og bæta upp fyrir losun sína í fortíðinni.
„Heimurinn fjarlægist markmið sín um kolefnishlutleysi. Lofthreinsun með kolefnisbindingu (e. DACCS) mun gegna lykilhlutverki í að snúa þeirri þróun við. Við fögnum samstarfinu við Carbfix, sem gerir okkur kleift að taka hröð skref í átt að markmiðum okkar um vöxt,“ segir Einar Tyssen, forstjóri Removr.
Tækni Removr er komin á stig fjórðu kynslóðar tilraunastöðvar sem hefur 50 tonna árlega afkastagetu og er starfrækt af GreenCap Solutions, norskum samstarfsaðila fyrirtækisins. Í febrúar síðastliðnum tilkynnti Removr um fyrstu tilraunastöð sína á iðnaðarskala. Hún er fjármögnuð með fyrsta styrknum sem veittur hefur verið í Noregi til þróunar á lofthreinsitækni. Árleg afkastageta hennar verður 300 tonn á ári og hún verður tekin í notkun á næsta ári í þróunarmiðstöð kolefnisföngunar í Mongstad. Hún verður jafnframt nýtt til að kanna hvort tæknin geti nýst til að fanga CO2 frá iðnaði þar sem styrkur í útblæstri er lágur.
Carbfix hefur þróað aðferð til að binda CO2 í bergi neðanjarðar á innan við tveimur árum. Fyrirtækið hefur beitt tækninni allt frá árinu 2012. Aðferðin flýtir náttúrulegum ferlum í hvarfgjörnu basalti og veitir þannig örugga og varanlega bindingu með minni tilkostnaði en margar aðrar lausnir.
„Samstarf Carbfix og Removr er nýtt og áþreifanlegt skref í uppbyggingu lofthreinsunar með kolefnisbindingu á stærri skala en hingað til. Við hlökkum til að þróa þetta samstarf enn frekar,“ segir Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
Removr stefnir á að bjóða hagkvæmustu lausn á sínu sviði og hefur í því skyni stofnað til samstarfs við fjölmarga leiðandi aðila, þeirra á meðal Carbfix, Orku náttúrunnar, SINTEF, Metier, Citec og DNV. Árið 2022 gerði DNV tæknilega áreiðanleikakönnun á uppbyggingaráformum Removr og staðfesti þau. Removr á í við viðræðum við Orku náttúrunnar um forsamkomulag sem yrði grundvöllur að samningi um kaup á endurnýjanlegri raforku sem er forsenda sjálfbærs reksturs stöðva fyrirtækisins.
„Markmiðið um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráður kallar á að CO2 verði fjarlægt úr andrúmsloftinu hratt og varanlega. Það mun ekki takast án þess að komið verði á fót öflugri virðiskeðju fyrir lofthreinsun með kolefnisbindingu, og Removr ætlar að taka virkan þátt í að þróa hana,“ segir Tyssen.
Um Carbfix:
Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur síðan 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Coda Terminal verkefni Carbfix, eða „Sódastöðin“, hlaut 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og miðar að því að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík. Nánari upplýsingar um fyrirtækið, tækni þess og verkefni má finna á carbfix.com.
Um Removr:
Removr er norskt fyrirtæki sem stefnir að uppbyggingu á lofthreinsun með kolefnisbindingu á iðnaðarskala. Markmið fyrirtækisins er að verða leiðandi í lofthreinsun með því að nýta bestu mögulegu tækni, kjöraðstæður á starfssvæðum sínum og afburðastarfsfólk og -samstarfsaðila til að byggja fyrstu lofthreinsistöð heims sem notar ísogsefni á föstu formi til að hreinsa milljón tonn á ári af CO2 úr andrúmsloftinu. Eigendur Removr eru Vanir Green Industries (VGI), sem stofnaði FREYR Batteries, og GreenCap Solutions, tæknifyrirtæki sem stýrt er af BR Industries. Tækni Removr byggir á sannreyndri og orkunýtinni lofthreinsitækni Greencap Solutions. Nánari upplýsingar má finna á removr.no.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.