Hoppa yfir valmynd

11.08.2023

Carbfix og samstarfsaðilar hljóta styrk frá bandarískum stjórnvöldum

Samstarfsverkefni þrettán aðila undir forystu RMI, Carbfix og Pacific Northwest National Laboratory (PNNL) hefur hlotið styrk frá bandaríska orkumálaráðuneytinu til að þróa verkefni um föngun kolefnis úr andrúmslofti og bindingu þess í jarðlögum í norðvesturhluta Bandaríkjanna. Styrkurinn nemur þremur milljónum dollara.

Verkefnið nefnist Ankeron Carbon Management Hub. Markmiðið er að koma á fót miðstöð fyrir hreinsun á CO2 úr andrúmsloftinu (e. Direct Air Capture/DAC) og varanlega bindingu þess, meðal annars í basaltjarðlögum með Carbfix aðferðinni.

 

Norðvestur-Bandaríkin henta einkar vel til slíks verkefnis. Þar eru miklar grænar orkuauðlindir og einnig basaltjarðlög sem geta bundið milljarða tonna af CO2 varanlega í formi steinda.

 

Samkvæmt Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) munu markmið Parísarsáttmálans ekki nást án þess að hluti af sögulegri losun CO2 verði fjarlægður úr andrúmsloftinu (e. Carbon Dioxide Removal/CDR), meðal annars með lofthreinsun, til viðbótar við afgerandi og tafarlausan samdrátt í losun frá jarðefnaeldsneyti.

 

Styrkurinn, sem er til tveggja ára, er veittur samkvæmt ákvæðum bandarískra laga um innviðauppbyggingu (e. Bipartisan Infrastructure Law) sem lúta að þróun og uppbyggingu á lofthreinsitækni. Féð verður nýttur í frumþróun á umgjörð verkefnisins, fýsileikakönnun og fyrstu hönnun.

 

„Við þurfum aðferðir sem geta fjarlægt CO2 úr andrúmsloftinu í stórum stíl á sjálfbæran hátt. Lofthreinsun er álitlegur kostur til þess,“ segir Daniel Pike, verkefnisstjóri Ankeron og yfirmaður CDR verkefna hjá RMI. „Verkefnishópurinn er staðráðinn í að standa rétt að öllu og sýna fyllstu ábyrgð, bæði gagnvart nærsamfélögum og vísindasamfélaginu. Við munum finna leiðir til að byggja upp hreina orkustrauma á svæðinu fremur en að ganga nærri þeim.“

 

RMI er sjálfstæð og óhagnaðardrifin bandarísk stofnun sem vinnur að framgangi grænna orku- og loftslagslausna. Hún leiðir þróun á umgjörð verkefnisins og viðskiptalegum hliðum þess.

 

Carbfix og PNNL leiða athugun á margvíslegum vísindalegum og tæknilegum þáttum.

 

Á meðal annarra þátttakenda á þessu stigi eru AES, sem er leiðandi í þróun grænna orkukosta í Bandaríkjunum, og breiður hópur fyrirtækja í fremstu röð í þróun tækni til að vinna gegn loftslagsvánni: Blue Planet, Heirloom, LanzaTech, Removr, Sustaera og Twelve. Washington State University Tri-Cities styður samfélagslegan hluta verkefnisins og Náttúruauðlindastofnun Washington-ríkis er tæknilegur ráðgjafi. Verkfræðiráðgjöf verður veitt af Fluor. Stefnt er að því að fá fleiri samstarfsaðila að verkefninu á síðari stigum.

 

„Föngun og binding á hluta þess CO2 sem þegar hefur verið losað í andrúmsloftið er nauðsynlegur liður í að ná tökum á loftslagsvánni, ásamt öðrum aðgerðum. Við erum ákaflega stolt af því að sannreynd tækni okkar til steindabindingar sé hluti af þessu mikilvæga verkefni, sem er skipað framúrskarandi samstarfsaðilum,“ segir dr. Bergur Sigfússon, yfirmaður kolefnisföngunar og niðurdælingar hjá Carbfix. „Það sem skiptir mestu við uppbyggingu á bæði sannreyndum og nýjum loftslagsverkefnum er að þau standi á sterkum vísindalegum grunni. Við gerum áfram ítrustu kröfur í þeim efnum og byggjum á yfir 10 ára reynslu af því að beita aðferð okkar til að binda CO2 í jarðlögum á Íslandi.“

 

Þrjú fyrirtæki á sviði lofthreinsunar taka þátt í þessum fyrsta hluta verkefnisins. Tækni þeirra þykir vænleg, hún getur gengið alfarið fyrir rafmagni og hentar vel fyrir aðstæður á svæðinu. Fyrirtækin munu vinna með RMI, Carbfix og PNNL til að meta tæknilegar og viðskiptalegar forsendur þess að innleiða tækni þeirra undir merkjum Ankeron miðstöðvarinnar, sem mun draga úr styrk CO2 í andrúmsloftinu, efla græna orkukosti, skapa eftirsóknarverð störf og fela í sér ávinning fyrir bæði samfélag og umhverfi.

 

„Við fögnum því að Ankeron hafi orðið fyrir valinu hjá orkumálaráðuneytinu, aðeins nokkrum mánuðum eftir að Heirloom varð fyrst til að binda CO2 úr andrúmsloftinu í steypu. Styrkveitingin skapar ný og spennandi tækifæri fyrir steindabindingu sem aðferð til varanlegrar geymslu á CO2,“ segir Max Scholten, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Heirloom. „Aðferð okkar til lofthreinsunar felst í að nýta náttúrulega getu kalksteins til að binda CO2 úr andrúmsloftinu og við hlökkum til að hún verði hluti af Ankeron.“

 

Samráð við samfélagið verður snar þáttur í fýsileikakönnun fyrir Ankeron verkefnið og áætlun þess um samfélagslegan ávinning. Tvær rótgrónar stofnanir á svæðinu, PNNL og Washington State University Tri-Cities, munu leiða þá vinnu. Báðir aðilar búa að mikilli reynslu af vinnumarkaðsmálum, samskiptum við samfélög og samráði um flókin uppbyggingarverkefni á þessu svæði.

 

„Ég er hæstánægð með að nemendur WSU Tri-Cities verði í framlínu DAC-rannsókna og samráðs við nærsamfélagið í þessu verkefni ásamt PNNL,“ segir Jillian Cadwell, verkfræðiprófessor við Washington State University Tri-Cities. „Þetta tækifæri samræmist vel áherslum okkar á menntun framtíðarvinnuafls í orkugeiranum og starfi nemenda okkar undir merkjum Clean Energy Ambassarods Network.“

 

Ankeron er eitt nokkurra verkefna sem bandaríska orkumálaráðuneytið valdi í þessari fyrstu umferð styrkveitinga til mögulegra lofthreinsimiðstöðva. Lokastigið verða styrkir til fjögurra vænlegustu verkefnanna, sem öll þurfa að geta sýnt fram á getu til að fanga og binda eina milljón tonna af CO2 úr andrúmsloftinu. Heildarfjárveiting til styrkjanna nemur 3,5 milljörðum Bandaríkjadala.

 

„Í þessu verkefni koma saman þrjár greinar kolefnistækni: lofthreinsun, steindabinding og nýting kolefnis í afurðir,“ segir Curt Graham yfirmaður tæknisviðs Fluor. „Við erum spennt að vinna með leiðandi nýsköpunarfyrirtækjum á þessum sviðum og nýta reynslu okkar í Washington-ríki, og þekkingu okkar á kolefnisverkefnum, til að þróa sjálfbærar lausnir sem styðja við loftslagsmarkmiðin.“

 

„Við hjá Removr hlökkum til að hasla tækni okkar völl í Norðvestur-Bandaríkjunum, en hún er sannreynd, örugg og orkuhagkvæm leið til að fjarlægja kolefni úr andrúmsloftinu í stórum stíl,“ segir Einar Tyssen, forstjóri Removr. „Það eru forréttindi fyrir okkur að fá að nýta áratuga reynslu okkar af orkuinnviðum í Noregi með svona öflugum, skapandi og fjölbreyttum hópi samstarfsaðila.“

 

„Samvinna er forsenda þess að skapa réttláta og loftslagsvæna framtíð. Við hlökkum til að vinna með öðrum þátttakendum í Ankeron að þeirri byltingarkenndu umbreytingu á CO2 sem þróun nýrrar lofthreinsitækni felur í sér,“ segir Nicholas Flanders, forstjóri og einn stofnenda Twelve. „Tilgangur þessarar nýsköpunar er að samfélagið fái nauðsynlega orkugjafa og hráefni án þess að jarðefnaeldsneyti komi við sögu.“

 

 

Nánari upplýsingar veita:

 

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Carbfix

s. 856 3535

olafurtg@carbfix.com

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.