Hoppa yfir valmynd

19.05.2021

Carbfix semur við danskt skipafélag um flutning á CO2

Carbfix og danska skipafélagið Dan-Unity CO2 hafa gert með sér samning um flutning á CO2 til förgunar í Coda Terminal móttöku- og förgunarmiðstöð Carbfix í Straumsvík. Skipafélagið sem hefur áratuga reynslu í flutningi á ýmsum gastegundum á sjó mun flytja CO2 á sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti. Kolefnissporið sem hlýst af skipaflutningunum verður aðeins um 3-6% af því CO2 sem fargað verður. Gert er ráð fyrir að fyrstu skipin byrji að sigla hingað til lands frá Norður Evrópu árið 2025.

Móttöku- og förgunarmiðstöðin Coda Terminal verður sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu en þar verður Carbfix tækninni beitt til varanlegrar steinrenningar á CO2. Fyrsti fasi verkefnisins er nú þegar hafinn en gert er ráð fyrir að hægt verði að farga allt að 3 milljónum tonna árlega í Straumsvík árið 2030.

Dan-Unity CO2 er fyrsta skipafélagið í heiminum sem einsetur sér að tengja saman föngunar- og förgunarstaði með stórtækum flutningi á CO2. Dan-Unity CO2 varð til við samruna Evergas og Ultragas, tveggja reynslumestu skipafélaga í Danmörku, sem bæði eru leiðandi á heimsvísu þegar kemur að flutningi á jarðgasi og jarðgasvökvum.

Hvert skip mun flytja um 12-20 þúsund tonn af CO2 á vökvaformi en áætlaður kostnaður við flutning og förgun í Straumsvík er 30 til 65 evrur á hvert tonn.

„Við hjá Dan-Unity CO2 teljum samstarf okkar við Carbfix vera stórkostlegt tækifæri til að lækka magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hratt og örugglega. Sem leiðandi fyrirtæki í sjóflutningum byggjum við á mjög víðtækri sérfræðiþekkingu og tryggjum að sjóflutningar gegni mikilvægu hlutverki í flutningi á CO2. Sem leiðtogi á sviði alþjóðlegra sjóflutninga hefur Danmörk einstakt tækifæri til að gegna leiðtogahlutverki sem byggir á reynslu og nýrri tækni. Danskar loftslagslausnir eru nú þegar þekktar á heimsvísu, má þar nefna græna orkugjafa sem knýja flutningaskip. Því er ljóst að saman getum við styrkt stöðu okkar.“

Steffen Jacobsen, forstjóri Evergas

„Við erum afskaplega ánægð með að hafa fengið Dan-Unity CO2 til liðs við okkur. Þetta er rótgróið fyrirtæki með áratuga reynslu í flutningum á gösum á sjó og því afar dýrmæt reynsla sem við erum að fá inn í verkefnið. Danmörk er að leggja mikla áherslu á loftslagsmálin og vonandi er þetta aðeins byrjunin á samstarfi Íslands og Danmörku í baráttunni gegn loftslagsvánni. Það skiptir okkur miklu máli að fá með okkur í þetta verkefni aðila sem sýna í verki að þeir ætla að taka þátt í að berjast gegn loftslagsvánni. Dan-Unity CO2 mun flytja hingað til lands CO2 á umhverfisvænan hátt sem er mikið fagnaðarefni.“

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.