Hoppa yfir valmynd

12.05.2023

Carbfix vakti athygli umhverfis- og loftslagsráðherra Norðurlandanna

Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix kynnti aðferð fyrirtækisins til kolefnisbindingar fyrir norrænum umhverfis- og loftslagsráðherrum í Borgarfirði í gær. Ísland fer í ár með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Kynning Eddu vakti mikla athygli en hún fór yfir markmið og áætlanir Carbfix, þar á meðal um umfangsmesta loftslagsverkefni Íslands, Coda Terminal. Í kjölfarið fengu ráðherrarnir tækifæri til að spyrja spurninga.

 Á síðasta ári veitti Nýsköpunarsjóður Evrópu Carbfix 105 milljóna evra styrk til að byggja Coda Terminal eða „Sódastöðina“. Verkefnið felur í sér að hefja kolefnisbindingu í jörðu með Carbfix-aðferðinni í Straumsvík. CO2 verður flutt hingað til lands með skipum en jafnframt er stefnt að bindingu á CO2 frá álverinu í Straumsvík og mögulega öðrum innlendum iðnaði. Gert er ráð fyrir að hefja reksturinn í skrefum. Markmiðið er að fullbyggð geti Sódastöðin bundið 3 milljónir tonna af CO2 á ári, sem er meira en allur íslenskur iðnaður losar samanlagt. UST

Meira en tíu ár eru liðin frá því að Carbfix hóf tilraunir með CCS aðferð sem felur í sér bindingu CO2 í berglögunum á Hellisheiði, þ.e. að breyta því í stein. Síðan hafa rúmlega 100.000 tonn af CO2 sem fönguð eru beint úr útblæstri frá Hellisheiðarvirkjun verið geymd með þessum hætti. 

„Samstarf Norðurlandanna á sviði loftslagsmála er mikilvægt og áhrifaríkt,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem stýrði fundinum. „Við getum boðið grænar lausnir, allt frá vindorku til jarðvarma, frá kolefnisföngun til grænna skipaleiða – og það er hlustað á okkur á alþjóðlegum vettvangi.“  

Í yfirlýsingum norrænna ráðherra hefur norrænt samstarf um föngun og geymslu kolefnis verið skilgreint sem mikilvægt. Rannsóknir benda til þess að mestur ávinningur af norrænu samstarfi felist í að leysa áskoranir sem tengjast samgöngum, kolefnisgeymslu og þróun reglna til langtíma á þessu sviði.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.