Hoppa yfir valmynd

23.10.2023

Carbfix á forsíðu National Geographic: Kolefninu skilað aftur til síns heima

Carbfix sem brautryðjandi á heimsvísu í bindingu koldíoxíðs (CO2) er á forsíðu nýjustu útgáfu hins virta tímarits National Geographic, sem kemur út á næstu dögum. Í ítarlegri grein tímaritsins um loftslagslausnir er því meðal annars lýst hvernig Carbfix-aðferðin er ein þeirra lausna sem beita má til að vinna gegn hlýnun jarðar. 

Yfirskrift greinarinnar er: „Nýtt vopn til að berjast gegn loftslagsbreytingum? Skilum kolefninu þangað sem við tókum það.“ Þetta vísar til þess að rætur loftslagsvandans liggja í vinnslu jarðefnaeldsneytis úr jörðu, en með Carbfix-aðferðinni er koldíoxíðinu skilað aftur ofan í jörðina. 

 

Carbfix hefur síðan 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 í berglögum á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Coda Terminal loftslagsverkefni Carbfix, eða „Sódastöðin“, hlaut í fyrra 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og miðar að því að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík.

 

Í samtali blaðamanns National Geographic við Eddu Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix, kemur fram að markmið fyrirtækisins sé að vinda ofan af og bókstaflega snúa við einni afdrifaríkustu hugmynd mannkynssögunnar, sem var sú að sækja gríðarlegt magn kolefna í formi jarðefnaeldsneytis djúpt úr jörðu. 

Mynd af niðurdælingarholu Carbfix á Hellisheiði prýðir forsíðu nóvemberheftis tímaritsins National Geographic. Myndin var tekin af þekktum ljósmyndara, Davide Monteleone. 

 

Hægt er að nálgast greinina hér: https://www.nationalgeographic.com/premium/article/remove-carbon-emissions

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.