Hoppa yfir valmynd

21.01.2022

Edda Sif hlýtur hvatningarverðlaun FKA

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, hlaut í gærkvöld hvatningarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu. „Mikil viðurkenning fyrir okkur hjá Carbfix,“ segir Edda.

Edda hlaut viðurkenninguna á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi en dómnefnd skipuð sjö einstaklingum úr viðskiptalífinu stendur að valinu. Formaður dómnefndar er Hulda Ragnheiður Árnadóttir Náttúruhamfaratrygginga Íslands og fyrrverandi formaður FKA.

FKA Viðurkenningarhátíðin er haldin árlega þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar. Þar koma félagskonur FKA og öll kyn úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs saman.  Á hátíðinni eru eftirfarandi viðurkenningar veittar: FKA viðurkenningin, þakkarviðurkenningin og hvatningarviðurkenningin en viðurkenningarnar voru fyrst veittar árið 1999.

Jafnrétti og fjölbreytni skilar auknum árangri

„Ég lít á þetta fyrst og fremst sem mikla viðurkenningu og sýnir okkur að miklar væntingar eru gerðar til starfsfólks og tækni Carbfix. Ísland getur skapað sér mikil tækifæri með markvissri uppbyggingu græns og loftslagsvæns iðnaðar sem og útflutningi á hugviti. Ég lít á þessa viðurkenningu sem hvatningu til okkar hjá Carbfix að halda áfram að leggja okkar af mörkum þar,“ segir Edda Sif, sem hefur verið lykilkona hjá Carbfix frá upphafi verkefnisins.  

Edda hefur verið ein þeirra sem hefur þróað aðferðina og fylgt henni gegnum rannsókna- og tilraunafasa auk innleiðingar hennar hér á landi.

„Það skiptir öllu máli að þessi nýi og loftslagsvæni iðnaður sem Carbfix er hluti af sé frá upphafi byggður upp með alhliða jafnrétti að leiðarljósi. Konur hafa leitt þróun og uppbyggingu Carbfix allar götur frá 2007 og málaflokkurinn er okkar hjartans mál. Þá er ég ekki bara að vísa til jafnréttis kynjanna heldur fjölbreytileika almennt enda er margsannað að jafnrétti og fjölbreytni bætir ákvarðanatöku og skilar auknum árangri.‘‘

Frá dómnefnd

„Edda Sif er vísindakona á heimsmælikvarða. Hún hefur unnið að rannsóknum sem tengjast orkumálum í á annan áratug. Edda er sannur leiðtogi, sem sést meðal annars á því hversu vel henni hefur gengið að fá fólk um allan heim til liðs við sig, til að vinna að hennar hjartans máli, sem er CarbFix aðferðin.”

„Edda er í fararbroddi í orkugeiranum í baráttunni við loftslagbreytingar og hefur sýnt og sannað að ekkert er ómögulegt. Hún hefur, ásamt sínu teymi, þróað aðferð til kolefnisföngunar og -förgunar, sem mun færa heimsbyggðina nær því að ná loftslagsmarkmiðum sínum. Hún er fylgin sér og hefur náð að nýta þekkingu sína og persónulega styrkleika með aðdáunarverðum hætti til að koma til leiðar mikilvægum breytingum í loftslagsmálum í heiminum. Edda er frábær fyrirmynd og mikilvægt fyrir samfélagið að hafa manneskju eins og Eddu til að líta upp til.“

Félag kvenna í atvinnulífinu FKA þakkar Eddu Sif fyrir að vera góð fyrirmynd fyrir konur í atvinnulífinu og óskar henni til hamingju með viðurkenninguna. Reykjavík, 20. janúar 2022. Sigríður Hrund Pétursdóttir og Andrea Róbertsdóttir formaður FKA framkvæmdastjóri FKA

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.