Hoppa yfir valmynd

10.06.2021

Elkem vill nýta Carbfix til kolefnisjöfnunar á Grundartanga 

Elkem Ísland hyggst nýta sér kolefnisförgun Carbfix til að kolefnisjafna rekstur Járnblendiverksmiðju sinnar á Grundartanga. Samhliða áformunum verður kannað, í samstarfi við Þróunarfélag Grundartanga, hvort grundvöllur sé fyrir hagnýtingu koldíoxíðs frá verksmiðjunni.

Elkem vill nýta Carbfix til kolefnisjöfnunar á Grundartanga

Viljayfirlýsing þessa efnis var undirrituð af stjórnendum fyrirtækjanna og stjórnarformanni Þróunarfélags Grundartanga að viðstöddum ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í gær. 

Með viljayfirlýsingunni er skapaður rammi utan um nauðsynlega gagnaöflun, rannsóknir og greiningar á því hvað þurfi að koma til svo nýta megi Carbfix-aðferðina til að fanga koldíoxíð frá málmvinnslu Elkem og farga því varanlega í jarðlögum. Aðferðin hefur þegar sannað gildi sitt við Hellisheiðarvirkjun. 

Edda Sif Aradóttir framkvæmdastýra sagði Carbfix með mikinn byr í seglum, sem væri afar ánægjulegt og nauðsynlegt þegar loftslagsváin gerir vart við sig með sífellt fjölbreyttari hætti. „Við höfum vart undan að svara óskum um samstarf víðsvegar um heiminn en það er gott að ráðast fyrst í þetta verkefni hér heima fyrir,“ segir Edda Sif. 

Fyrir tæpum tveimur árum gekkst ríkisstjórn Íslands fyrir samstarfi milli Orkuveitu Reykjavíkur, eiganda Carbfix, og fulltrúa stóriðjunnar á Íslandi með það fyrir augum að kanna hvort aðferðin sem reynst hefur svo árangursrík í jarðhitanýtingunni gæti nýst stóriðjunni. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var einn fjögurra ráðherra sem komu að því samstarfi og var hún viðstödd undirritun þessarar fyrstu viljayfirlýsingar í framhaldi þessa frumkvæðis. 

Um leið og of mikill styrkur koldíoxíðs í andrúmslofti skapar vanda er lofttegundin nauðsynleg í ýmsa framleiðsluferla, ekki síst við ræktun ýmis konar. Því verður það kannað í samstarfi við Þróunarfélag Grundartanga hvort hægt verði að vinna svo hreint koldíoxíð úr losun járnblendiverksmiðjunnar að það megi hagnýta. 

Við þetta sama tækifæri var undirrituð viljayfirlýsing milli Elkem Íslands, Þróunarfélagsins og Veitna,  systurfyrirtækis Carbfix, um rannsóknir á nýtingu svokallaðs glatvarma frá iðjuverum á Grundartanga. 

Ólafur Adolfsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga, segir vonir standa til þess að verkefnið styðji við áframhaldandi uppbyggingarskeið á Grundartanga sem grundvallað verði á nýsköpun, umhverfisvænum lausnum, verðmætasköpun og klasasamstarfi öflugra fyrirtækja, stofnana og opinberra aðila. Á svæðinu sé aðgangur að ýmsum efnisstraumum, þ.e. koldíoxíði og glatvarma frá iðnaðarstarfsemi á svæðinu, aðgengi að endurnýjanlegri umfram raforku sé gott og  afar góð hafnaraðstaða. 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.