Hoppa yfir valmynd

16.12.2022

Erling Tómasson til Carbfix

Erling Tómasson viðskiptafræðingur og endurskoðandi hefur verið ráðinn til að stýra rekstri og fjármálum Carbfix. Hann hefur þegar tekið til starfa.

Erling var áður meðeigandi hjá Deloitte þar sem hann sinnti fjármála- og upplýsingatækniráðgjöf, meðal annars til nýsköpunarfyrirtækja. Hjá Deloitte bar Erling m.a. ábyrgð á ráðgjöf í tengslum við kaup og sölu fyrirtækja og nýtingu upplýsingtækni til að stuðla að skilvirkum rekstri.

Erling starfaði í átta ár í Svíþjóð, sem fjármálastjóri tveggja fyrirtækja í örum vexti og síðar hjá Deloitte í Stokkhólmi. Þar áður var Erling meðeigandi hjá Deloitte Íslandi.

„Carbfix er ákaflega spennandi fyrirtæki, enda brautryðjandi í þróun nýrra lausna til varanlegrar kolefnisförgunar. Það liggur fyrir að slíkar lausnir eru nauðsynlegar til að ná loftslagsmarkmiðum heimsins og ég hlakka mjög til að taka þátt í áframhaldandi þróun fyrirtækisins,“ segir Erling.

Carbfix hefur í tíu ár, eða allt frá árinu 2012, fangað CO2 frá Hellisheiðarvirkjun, blandað það ferskvatni og dælt ofan í basaltjarðlög þar sem það umbreytist í stein með náttúrulegum efnahvörfum. Hefur sú aðferð til varanlegrar og öruggrar förgunar á CO2 vakið heimsathygli. Fyrr í sumar var tilkynnt að verkefni Carbfix um Coda Terminal, móttöku- og förgunarstöð fyrir CO2 í Straumsvík, væri eitt af 17 verkefnum sem hljóta styrki upp á alls 1,8 milljarða evra frá Nýsköpunarsjóði Evrópu (Innovation Fund).

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.