Hoppa yfir valmynd

28.04.2023

„Innblástur í stað útblásturs“

Yfir 150 gestir sóttu opinn kynningarfund Carbfix um loftslagsverkefnið Coda Terminal í Straumsvík, sem haldinn var þriðjudaginn 25. apríl í Bæjarbíói, Hafnarfirði. Þetta var þriðji opni kynningarfundurinn um verkefnið og annar íbúafundurinn í Hafnarfirði, en gert er ráð fyrir að þeir verði haldnir a.m.k. árlega.

Fluttar voru upplýsandi kynningar um verkefnið og að þeim loknum svöruðu fulltrúar Carbfix, Rio Tinto (ISAL) og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar spurningum fundargesta.

Coda Terminal, eða „Sódastöðin“, felur í sér að hefja kolefnisbindingu í jörðu með Carbfix-aðferðinni í Straumsvík. CO2 verður flutt hingað til lands með skipum en jafnframt er stefnt að bindingu á CO2 frá álverinu í Straumsvík og mögulega öðrum innlendum iðnaði. Gert er ráð fyrir að hefja reksturinn í skrefum. Markmiðið er að fullbyggð geti Sódastöðin bundið 3 milljónir tonna af CO2 á ári, sem er meira en allur íslenskur iðnaður losar samanlagt. Hlekkur á viðburðinn má finna hér.

Framtíðarsýnin

Gunnar Dofri Ólafsson, fundarstjóri hóf fundinn með opnunarerindi þar sem hann lýsti verkefninu sem: „Starfsemi sem gengur útá innblástur; að fanga og geyma þann útblástur sem hingað til hefur fengið að valda þeim skaða sem öllum ljós.“

Gunnar Dofri benti á að samkvæmt nýjustu skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna er algjörlega nauðsynlegt að fanga og binda CO2 frá iðnaði til að ná markmiðinu um að hemja hlýnun við 1,5 gráður, til viðbótar við aðrar aðgerðir, svo sem að draga úr olíunotkun.

 

Valdimar Víðisson forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar nefndi að allir flokkar í bæjarstjórn styddu verkefnið, og lýsti þeim tækifærum sem það felur í sér fyrir bæjarfélagið.

Kristinn Jakobsson frá Carbfix, verkefnastjóri Sódastöðvarinnar, fór yfir hvað felst í verkefninu og hvar það er statt. Auk skipulagsmála og annars undirbúnings fer nú fram ítarleg vinna við umhverfismat.

 Bjarni Már Gylfason samskiptastjóri ISAL fór yfir markmið álversins í Straumsvík um að fanga CO2 úr útblæstri og binda það með Sódastöð Carbfix.

Egill Árni Guðnason jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR hélt afar áhugaverða kynningu á jarðskjálftahættu á svæðinu. Nær engin jarðskjálftavirkni hefur mælst í Straumsvík frá upphafi mælinga, enda er svæðið utan sprungusvæða. Niðurstaða frummats ÍSOR er að hætta á finnanlegri jarðskjálftavirkni sé óveruleg.

Áhugaverðar umræður

Að kynningum loknum tóku frummælendur þátt í umræðum ásamt þeim Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur, Eddu Aradóttur og Heiðu Aðalsteinsdóttur frá Carbfix.

Meðal annars var spurt um vistvæn skip og bent á að sú tækni væri ekki langt komin og því þyrfti að brenna olíu við að flytja CO2 til Straumsvíkur með tilheyrandi kolefnisspori. Kristinn Jakobsson verkefnastjóri tók undir að framboð á vistvænu skipaeldsneyti væri lítið enn sem komið er, skipin yrðu hönnuð til að geta gengið fyrir því þegar það verður í boði. Þá benti hann á að kolefnisspor þessara siglinga yrði 2%-7% af farmi þeirra og væru efri mörkin miðuð við að eingöngu væri keyrt á olíu.

 

Þurfum allar lausnir

Þá var spurt hvers vegna svo mikil áhersla væri lögð á kolefnisbindingu sem söluvarning. Bent var á að Norðmenn væru að binda milljónir tonna á ári í gömlum olíulindum og spurt hvers vegna „þetta evrópska kolefni“ gæti ekki farið þangað líka.

Fulltrúar Carbfix bentu á umfang vandans og að á ári hverju væri losun á CO2 þúsundföld á við það sem er bundið. „Við munum því þurfa á lausnum Norðmanna að halda en við þurfum fleiri lausnir og eina þeirra er að finna hér á Íslandi og við getum vonandi lagt hana til, okkur öllum til heilla,“ sagði Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir frá Carbfix.

Spurningum var síðan beint til forseta bæjarstjórnar um áhyggjur af jarðskjálftum. Benti hann á að rétt væri að bíða eftir endanlegu umhverfismati sem væri væntanlegt á fyrsta fjórðungi næsta árs. „Við förum auðvitað ekki af stað ef það talin hætta af þessu verkefni. Í dag benda öll gögn til þess, eins og fram hefur komið hér í kvöld, að um óverulega áhættu sé að ræða.“

 

Upplýsingagjöf og samtal

Þá kom fram að Carbfix stefni á að halda upplýsingafundi fyrir íbúa a.m.k. árlega. Auk þess hafi verið stofnað hagsmunaráð um verkefnið, sem er vettvangur fyrir samtal og upplýsingagjöf. Öll geta skráð sig í hagsmunaráðið hér: https://www.carbfix.com/is/samrad.

Fyrri hluti fundarins var í höndum Hafnarfjarðarbæjar og sneri að skipulagsmálum í Straumsvík en seinni hlutinn var á vegum Carbfix.

Allur fundurinn var tekinn upp og er hægt að nálgast upptöku af honum hér: https://www.facebook.com/watch/live/?ref=watch_permalink&v=248204614356160

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.