Hoppa yfir valmynd

17.03.2022

Græn iðnbylting á Íslandi

Ísland getur markað sér afgerandi sérstöðu í loftslagsmálum. Í því sambandi beinist athyglin réttilega að grænni orku og hvernig nýta eigi innlenda orkugjafa til að útrýma jarðefnaeldsneyti. En við höfum líka alla burði til að vera í fararbroddi á fleiri sviðum, þar á meðal í þróun og innleiðingu nýrra tæknilausna sem byggja á íslensku hugviti.

„Ríkissjóður fær árlega miklar tekjur af sölu losunarheimilda. Skynsamlegt og rökrétt virðist að nýta þær til að efla íslenskar grænar lausnir í loftslagsmálum.“

Stór áform

Carbfix tæknin, sem gerir kleift að binda CO2 varanlega í bergi, hefur í áratug verið notuð með góðum árangri á Hellisheiði. Mikill áhugi er á að nýta hana á mun stærri skala, bæði hérlendis sem erlendis, og allmörg samstarfsverkefni eru ýmist hafin eða í burðarliðnum. Einna hæst ber Coda-verkefni Carbfix sem miðar að því að binda árlega 3 milljónir tonna af CO2 í Straumsvík. Til samanburðar nemur heildarlosun Íslands um 5 milljónum tonna á ári (með stóriðju en án millilandaflugs og landnotkunar).

Fleiri dæmi mætti nefna um grænar íslenskar lausnir. Unnið er að nokkrum þeirra í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun, þar sem aðstaða er fyrir vísindafólk, frumkvöðla og fyrirtæki til að byggja upp umhverfisvæna starfsemi og efla þannig nýsköpun í atvinnulífi.

Á nýafstöðnu Iðnþingi var fjallað um „Græna iðnbyltingu á Íslandi“. Þar ríkti einhugur um að metnaðarfull markmið Íslands – um verða bæði kolefnishlutlaust og óháð jarðefnaeldsneyti 2040 – fælu í sér stór tækifæri. Einnig að þau væru vel framkvæmanleg, þótt halda yrði vel á spöðunum.

Úrbótahugmynd

Margt gott hefur verið gert á undanförnum árum til að greiða götu grænnar iðnbyltingar hér á landi. Endurgreiðslur til rannsókna- og þróunarkostnaðar hafa verið hækkaðar og ný lög samþykkt um ívilnanir til grænna fjárfestinga, svo dæmi séu tekin.

Á Iðnþingi leyfði ég mér að nefna fáein atriði sem huga mætti betur að. Eitt þeirra lýtur að opinberum stuðningi við íslensk frumkvöðlaverkefni sem leita fjármagns í erlenda sjóði.

Nýsköpunarsjóður Evrópu var stofnaður til að hraða uppbyggingu nýrra tæknilausna sem styðja við vegferð álfunnar að kolefnishlutleysi. Sjóðurinn styður hvoru tveggja við verkefni á smærri og stærri skala. Stór verkefni sem hlutu stuðning frá sjóðnum á síðasta ári fengu að meðaltali hvert um 15 milljarða króna í sinn hlut. Carbfix er meðal íslenskra fyrirtækja sem sótt hefur um stuðning frá sjóðnum. Það eykur mjög möguleika slíkra umsókna ef stjórnvöld í heimalandinu styðja þær með vilyrði um fjárstuðning. Hann þarf ekki að vera hár, bara lítið brot af styrkupphæðinni, og getur auk þess verið með fyrirvara um að styrkurinn sem óskað er eftir fáist. Við höfum því lagt til við stjórnvöld að komið verði á almennu kerfi um stuðning við slíkar styrkumsóknir.

Ríkissjóður fær árlega miklar tekjur af sölu losunarheimilda, eða tæplega milljarð í fyrra. Skynsamlegt og rökrétt virðist að nýta þær til að efla íslenskar grænar lausnir í loftslagsmálum. Þar með talið að styðja við íslenskar umsóknir um margfalt meira fjármagn erlendis frá. Þetta myndi efla verulega möguleika íslensks hugvits í harðri samkeppni um alþjóðlegt fjármagn.

Edda Sif Pind Aradóttir

framkvæmdastýra Carbfix

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 16. mars sl.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.