Hoppa yfir valmynd

05.07.2022

Loftslagsaðgerðir eru lífsnauðynlegar

Tilkynntvarum nýtt lofthreinsiver Climeworks á Hellisheiði, í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar. Lofthreinisverið mun tífalda núverandi afköst föngunar og förgunar á koldíoxíði (CO2) úr andrúmslofti á svæðinu. Fyrir er Orca, annað lofthreinsiver Climeworks, sem tók til starfa síðastliðið haust og var hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Árið 2017 hófum við í Carbfix tilraunaverkefni með Climeworks þar sem loftsugutækni þeirra til föngunar var samþætt okkar förgunar aðferð. Carbfix tekur við CO2 frá loftsugunum, leysir það upp í vatni og dælir síðan niður í berggrunninn þar sem það breytist hratt og varanlega í stein. Með nýja lofthreinsiverinu aukast afköst föngunar úr andrúmslofti úr fjórum þúsundum tonna af CO2 á ári í alls 40 þúsund tonn sem nemur kolefnisspori um 3.500 íslendinga á ári samkvæmt kolefnisreikni OR og Eflu.

Að stöðva útblástur CO2 er mikilvægt en það mun ekki duga eitt og sér í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Það þarf að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa, draga úr neyslu, endurheimta vistkerfi og efla hringrásarhagkerfið. Í nýjustu skýrslu IPCC kemur einnig skýrt fram að heimurinn hefur enga möguleika á að ná loftslagsmarkmiðum sínum án umfangsmikillar kolefnisföngunar og -förgunar.

 Til þess eru nokkrar leiðir. Það er til dæmis hægt að gróðursetja tré, endurheimta votlendi og endurbæta jarðveg sem hefur spillst eða verið ofræktaður. Allt þetta fangar og bindur CO2 úr andrúmsloftinu. Til viðbótar þessu þurfum við á nýrri tækni að halda sem fangar CO2 beint úr andrúmsloftinu. (e. Direct Air Capture eða DAC). 

Föngun og förgun CO2 úr andrúmslofti tífölduð á Hellisheiði

Við vinnum nú hörðum höndum að því að beita Carbfix tækninni á mun stærri skala en við höfum gert áður, það erum við að gera bæði hér á Íslandi en líka í verkefnum erlendis. Einna hæst ber Coda Terminal verkefni Carbfix í Straumsvík sem miðar að því að binda árlega um 3 milljónir tonna af CO2. Til samanburðar nemur heildarlosun Íslands um 5 milljónum tonna á ári.

Ímyndum okkur að árið sé 2050. Heimurinn er breyttur, við erum á góðri leið með að ná loftslagsmarkmiðum okkar og halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C. Þegar heimsbyggðin horfir til baka á þær tæknilausnir sem náðu að fjarlægja öll gígatonnin af CO2 úr andrúmloftinu, þá munu sjónir beinast að Íslandi og  fyrstu loftsuguverunum sem reist voru hér. Við vorum frumkvöðlarnir.

Tæknilausnir Carbfix, Climeworks og annarra sambærilegra fyrirtækja eru ekki töfralausn við loftslagsvánni, en við erum stolt af því að vera hluti af lausninni og styðja við þróun þessa stækkandi iðnaðar, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í heiminum.

Aðferð okkar, sem byggist á áratuga reynslu af því að breyta CO2 varanlega í náttúrulegar steindir, er öruggasta og varanlegasta leiðin til kolefnisförgunar. Við þurfum allar hendur á dekk. Ákvarðanir og aðgerðir dagsins í dag og næstu ára skipta öllu máli fyrir líf á jörðinni næstu þúsundir ára.

Höfundur er Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

Grein birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2022

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.