Hoppa yfir valmynd

14.12.2022

Mest jákvæðni í garð Carbfix

Könnun Maskínu um viðhorf almennings í garð átján fyrirtækja innan orkugeirans sýnir að viðhorfin eru jákvæðust í garð Carbfix. Er það í fyrsta sinn sem Carbfix nær bestum árangri í þessari könnun, sem er gerð fjórum sinnum á ári. Tæp 53% svarenda sögðust jákvæð í garð fyrirtækisins og aðeins 5,4% neikvæð. Næstmest jákvæðni var í garð Landsvirkjunar eða 49,5%.

Könnunin var gerð 11. til 15. nóvember og svarendur voru 18 ára og eldri af öllu landinu. Hlutfall þeirra sem sögðust þekkja Carbfix var 55,6%, sem er 7 prósentustiga aukning á milli ársfjórðunga og hefur aldrei verið hærra. 

 

Á þessu ári eru 10 ár frá því að Carbfix hóf að breyta CO2 í stein með því að fanga það úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar, blanda því í vatn og binda það í jarðlög neðanjarðar. Í tilefni af þessum tímamótum hafa verið gerð stutt myndbönd um sögu fyrirtækisins sem sjá má hér: https://www.youtube.com/watch?v=ur68PfF4Jhk

Samkvæmt skýrslu IPCC sem kom út fyrr á þessu ári munu loftslagsmarkmið heimsins ekki nást án þess að kolefnisföngun og -förgun verði aukin verulega. Carbfix hefur þróað tækni til þess, sem hermir eftir og flýtir náttúrulegum ferlum til CO2 bindingar. Hún felur í sér að blanda CO2 í vatn og dæla kolsýrðu vatninu („sódavatninu“) niður í basaltberglög, þar sem CO2 gengur í efnasamband við málma í berginu og breytist varanlega í steindir. Aðferðinni hefur verið beitt með góðum árangri á Hellisheiði í áratug og hefur vakið heimsathygli.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.