Hoppa yfir valmynd

30.04.2021

Mikilvægt framlag í baráttunni

Við fengum til okkar ánægjulega heimsókn upp á Hellisheiði í skínandi sól í vikunni. Þá tókum við á móti þremur ráðherrum sem kynntu sér starfsemi Carbfix.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, auðlinda- og nýsköpunarráðherra í heimsókn upp á Hellisheiði

„Aðferðafræðin er einstök á heimsvísu og getur orðið mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsvánni,“ segir forsætisráðherra í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hún fjallar um Carbfix.

„Þessi merkilega nýsköpun er viðbót við aðrar aðferðir sem við Íslendingar höfum beitt til að binda kolefni en við höfum staðið framarlega í náttúrulegum lausnum til kolefnisbindingar eins og landgræðslu og skógrækt og höfum verið óþreytandi við að tala fyrir þeim á alþjóðavettvangi.“

Í heimsókninni á Hellisheiði leiddi Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdarstýra Carbfix hópinn um svæðið en meðal annars var kíkt á loftsugur Climeworks sem áætlað er að fari af stað í sumar. Þá var kíkt í kaffi til hennar Kristínar á Jarðhitasýningu ON og m.a. spjallað um vonir og væntingar verkefnisins. Og Katrín segir einmitt í grein sinni að verkefnið sé af stærri gerðinni.

 „Verkefnið er hins vegar gríðarstórt og meira mun þurfa til – en ef við höldum áfram á sömu braut mun það skila frekari árangri og Ísland leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsvánni – stærsta verkefni samtímans.“