Hoppa yfir valmynd

27.06.2024

Nokkrar staðreyndir um Carbfix 

Nýverið var því haldið fram í leiðara Viðskiptablaðsins að starfsemi Carbfix snúi ekki endilega að baráttunni gegn loftslagsbreytingum, “enda snýst starfsemi þessara fyrirtækja ekkert endilega um það – hún snýst um hagnaðarvonina sem felst í sölu á upprunaábyrgðum”. 

Tilgangur Carbfix er að hafa raunveruleg jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar með því að byggja upp, bæði hér á landi og erlendis, örugga, margsannaða og þrautreynda tækni sem Carbfix hefur þróað til að binda CO2 í stein. Að sjálfsögðu er stefnt að því að starfsemin skili hagnaði, eins og viðskiptafjölmiðill hefur væntanlega fullan skilning á.  

Það er rangt hjá leiðarahöfundi að Carbfix selji “upprunaábyrgðir”. Raforkuframleiðendur geta selt upprunaábyrgðir raforku en það hefur ekkert að gera með Carbfix eða kolefnisbindingu. Markaðurinn sem Carbfix horfir hvað helst til eru iðnfyrirtæki sem geta ekki komið í veg fyrir losun sína með orkuskiptum og þurfa að kaupa dýrar losunarheimildir í evrópska losunarkvótakerfinu (ETS). Með því að fanga losun sína og láta binda hana varanlega í jörðu geta fyrirtækin dregið úr losun í andrúmsloftið og þannig komist hjá því að kaupa losunarheimildir. Í þessu felst ávinningur fyrir bæði fyrirtækin og loftslagið. Aðrir viðskiptavinir Carbfix fanga CO2 úr andrúmslofti með það fyrir augum að selja vottaðar kolefniseiningar á frjálsum markaði. 

Leiðarahöfundur vísar í umfjöllun tímaritsins National Geographic um margvíslegar loftslagslausnir en gefur alranga mynd af inntaki hennar, sérstaklega hvað varðar Carbfix. Vissulega er þar minnst á efasemdir um kolefnisföngun, en þær lúta ekki á neinn hátt að virkni tækninnar heldur því, að áhersla á kolefnisföngun geti dregið úr áherslu á að skipta út jarðefnaeldsneyti. Carbfix tekur heilshugar undir slíkar áhyggjur en óumdeilt er að við þurfum að gera hvort tveggja. 

Í úttekt National Geographic eru bornar saman ólíkar lausnir. Þar segir að steindabinding í jörðu (aðferð Carbfix) geti skilað “miklum” árangri með “hóflegum” kostnaði, sem er ein hæsta einkunn sem nokkur loftslagslausn fær hjá tímaritinu. Greinarhöfundurinn segir beinlínis að Carbfix-aðferðin sé “gold-standard” til geymslu á CO2 því hún sé varanleg. Og í lok greinarinnar lýsir greinarhöfundur því hvernig hann stendur á Hellisheiði, virðir fyrir sér búnað Carbfix og Climeworks og segir við eiginkonu sína: “Í framtíðinni gæti þetta verið álitinn staðurinn þar sem stóra breytingin hófst; þar sem við byrjuðum loksins að kæla jörðina með því að skila öllu þessu kolefni sem við tókum upp úr jörðinni aftur niður.” 

Óumdeilt er að loftslagsmarkmið Parísarsamkomulagsins munu ekki nást án stórfelldrar föngunar og niðurdælingar á CO2 í berglög (e. geological storage of CO2) sem er hluti af öllum sviðsmyndum IPCC og í vaxandi mæli hluti af loftslagsaðgerðum þjóða heims. Samkvæmt IPCC þarf að auka umfang slíkrar starfsemi tæplega 70-falt á heimsvísu til ársins 2050 ef takmarka á hlýnun jarðar við 1,5°C, en í þeirri sviðsmynd er jafnframt gert ráð fyrir miklum árangri í að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa. 

Til að setja ávinninginn af starfsemi Carbfix í samhengi má horfa til framreikninga Umhverfisstofnunar á áætlaðri losun Íslands til ársins 2050 miðað við núverandi áform um samdrátt í losun. Heildarkolefnisbinding Coda Terminal, stærsta verkefnis Carbfix til þessa, yfir 30 ára líftíma verkefnisins, samsvarar 65% af samanlagðri uppsafnaðri losun Íslands (án landnotkunar) á sama tímabili. 

Það er því ekki að ástæðulausu sem þjóðir heims leggja nú stóraukna áherslu á uppbyggingu móttöku- og geymslustöðva fyrir CO2. Í nýlegri yfirlýsingu framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að slík verkefni séu algjörlega nauðsynleg til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi og að „bráð þörf“ (e. urgent need) sé á því að taka ný niðurdælingarsvæði í notkun fyrir árið 2030. Með hliðsjón af þessu hvetur framkvæmdastjórnin aðildarríkin til að styðja við uppbyggingu verkefna sem fela í sér föngun, flutning og niðurdælingu á CO2

Carbfix tæknin var sannreynd með vísindalegum hætti fyrir næstum 10 árum. Síðan þá hafa verið skrifaðar um hana yfir 100 ritrýndar vísindagreinar. Tæknin og árangur hennar til kolefnisbindingar hafa verið tekin út og vottuð af óháða vottunarfyrirtækinu DNV, bæði gagnvart ISO-staðli og Puro.earth staðlinum. Aðferðin er fyllilega gjaldgeng undir sérstöku regluverki Evrópusambandsins um niðurdælingu CO2 í jörðu, sem Ísland hefur tekið upp. Og stærsta verkefni Carbfix komst í gegnum þröngt nálarauga Nýsköpunarsjóðs Evrópu, sem veitti Coda Terminal verkefninu 17 milljarða króna styrk eftir stranga og ítarlega rýni. 

Hvorki Coda Terminal né önnur einstök verkefni munu leysa loftslagsvandann. En nauðsynlegt er að hefja verkið og því miður er óumdeilt að við erum langt á eftir áætlun. 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.