Hoppa yfir valmynd

22.05.2024

Opinn kynningarfundur um umhverfismat Coda Terminal

Við bjóðum öll hjartanlega velkomin á opinn fund um umhverfismat Coda Terminal í samkomusal Hauka að Ásvöllum Hafnarfirði, fimmtudaginn 30. maí kl 17:30. Fundinum verður einnig streymt í gegnum Facebook viðburð hér.

Efni fundarins:

Hvað er Coda Terminal og hvers vegna er verið að ráðast í þetta verkefni?

Niðurstöður umhverfismats kynntar ásamt hugmyndum að ásýnd og útliti Coda Terminal.

Umræður og spurningar frá gestum um verkefnið.

Gunnar Dofri Ólafsson sér um fundarstjórn.

Einnig verða uppi plaköt um ýmsa þætti umhverfismatsins þar sem boðið verður upp á spjall í smærri hópum við sérfræðinga sem komu að gerð umhverfismats og fulltrúa Carbfix.

Loftslagsverkefnið Coda Terminal í Straumsvík er afrakstur íslensks hug- og verkvits sem felur í sér varanlega bindingu koldíoxíðs (CO2) í berg með sannreyndum og öruggum aðferðum. Umhverfismat framkvæmdarinnar hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár, en á fundinum verða möguleg áhrif hennar á umhverfi og samfélag kynnt. EFLA ráðgjafarfyrirtæki leiddi gerð umhverfismats en auk hennar koma fjöldi sérfræðinga að gerð þess.

Umhverfismat Coda Terminal fer senn í opið kynningarferli, þar sem öllum gefst tækifæri á að kynna sér viðfangsefni og niðurstöður matsins. Við hlökkum til að deila niðurstöðum matsins með fundargestum og eiga samtal um verkefnið.

Hvað er Coda Terminal og hvers vegna þurfum við á því að halda?

Coda Terminal er afrakstur íslensks hug- og verkvits og markar upphafið á nýjum hljóðlátum og lyktarlausum grænum iðnaði sem hefur marktæk jákvæð áhrif á loftslagið með því að taka á móti CO2 frá aðilum sem falla undir iðnað þar sem ekki er hægt að útrýma CO2 losun með orkuskiptum. Hitastig á jörðinni fer hækkandi vegna of mikillar losunar CO2 af mannavöldum. Samhliða orkuskiptum og breyttu neyslumynstri og landnotkun þarf að binda CO2 sem annars færi út í andrúmsloftið til að ná loftslagsmarkmiðum okkar og heimsins.

Í Straumsvík verður byggð móttöku- og geymslustöð þar sem Carbfix tækninni verður beitt til að binda CO2 varanlega með öruggum og sönnuðum aðferðum. CO2 verður flutt hingað til lands með sérhönnuðum skipum en jafnframt má binda CO2 sem fangað er frá innlendum iðnaði og beint úr andrúmslofti. Coda Terminal mun sýna fram á að hægt er að útvíkka tækni Carbfix á þann hátt að hægt er að hafa raunveruleg áhrif á hlýnun jarðar. Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast hér: www.carbfix.com/is/codaterminal

Carbfix hefur þann tilgang að hafa marktæk jákvæð áhrif á loftslag með því að útvíkka sannaða tækni sína til að stemma stigu við hlýnun jarðar. Coda Terminal í Straumsvík næsta skref Carbfix til að ná þeim árangri. Nánari upplýsingar um verkefni Carbfix má nálgast hér: www.carbfix.com/is

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.