Hoppa yfir valmynd

Sönnun

Carbfix ferlið byggir á traustum vísindalegum grunni og hefur verið sannreynt á iðnaðarskala (t.d. Clark et al., 2020). Yfir 70.000 tonnum af CO2 hefur verið breytt í stein á Hellisheiði hingað til. Til að tryggja að steinrenning CO2 eigi sér stað og að það sé tryggilega geymt er traustum mæliaðferðum beitt. Þær eru m.a. niðurdæling ferilefna sem rekja steindabindingu og flæði niðurdældu vökvanna, reglulegar sýnatökur í nálægum eftirlitsholum, mælingar á CO2 flæði úr jarðvegi til að staðfesta að niðurdæling sé með eðlilegum hætti og forðalíkanagerð. Eftirlit er bráðnauðsynlegt til að tryggja að niðurdælingin sé við kjöraðstæður svo steinrenningin sé örugg og varanleg. Það er bæði hagstæðara og gangsærra sem stuðlar að bættu almenningsáliti og leiðir til hraðari þekkingaröflunar sem gagnast framtíðarverkefnum.

Skýringarmynd af Carbfix niðurdælingu með niðurdælingarholu (til hægri) og eftirlitsholu (til vinstri)

Hvernig vöktum við niðurdælingu CO2-leysta vatnsins?

Eftirlitsaðferðir Carbfix taka tillit til flutnings, niðurdælingar og steinrenningar koldíoxíðs. Gæðaeftirlit er framkvæmt á fengnu CO2 og því sem á að dæla niður. Einnig er vöktun á niðurdælingarkerfinu, áhrifum aðgerða á umhverfi holunnar og steinrenning CO2 staðfest.

Hita- og þrýstingsmælar vakta eðlisástand CO2 við flutning þess sem kemur í veg fyrir ótímabæra uppgufun vökva og þéttingu gasa og óhreinindi. Tölvustýrt flæðigreiningarkerfi hefur eftirlit með efnasamsetningu gassins sem kemur í niðurdælingarkerfið.

Til að tryggja öryggi niðurdælingakerfisins eru lekamælingar gerðar á yfirborði og við borholutoppinn. CO2 gasmælar eru settir á sérvalin svæði og einnig eru öll borholuhús útbúin CO2 nemum og þau reglulega skoðuð til að meta gasleka.

Þrýstingsnemar í gasleiðslum borholutoppsins auk nema við kraga fyrir ofan blöndunarpunkt CO2 og vatnsins staðfesta að niðurdæling sé við kjöraðstæður. Myndun loftbóla veldur skekkju á mældum þrýstingi sem gerir hröð inngrip möguleg. Leiðnimælir er settur í ákveðna dýpt í blöndunarleiðslunni sem gefur enn fremur til kynna ef gasið er ekki fullkomlega leyst í vatninu.

Hvernig sönnum við að CO2 breytist í stein?

Fjöldi ferilefna er notaður til að vakta steindabindingu koldíoxíðs neðanjarðar.

Mynd af útfellingum (græn-brún á litinn) á vatnssýnatöku dælu úr eftirlitsholu. Þessar útfellingar -steindir, staðfesta steinrenningu frá niðurdælda uppleysta CO2 og H2S í gegnum Carbfix aðferðina. Þvermál dælunar er 101 mm (Snæbjörnsdóttir et al., 2017).

Við Carbfix tilraunaniðurdælingar árið 2012 reyndust yfir 95% af koldíoxíðinu breytast í stein innan tveggja ára (Matter et al., 2016). CO2 var styrkt með kolefni-14 (14C) til að fylgjast með ferð þess og hvarfgirni. 14C2 hagar sér efna- og eðlisfræðilega nákvæmlega eins og 12C2 og áhrif samsætubrota milli fasaskipta eru í lágmarki. Þetta gerir okkur því kleift að vakta afdrif niðurdælda CO2 nokkuð nákvæmlega. Auk þess var rokgjörnum ferilefnum dælt niður: SF6 í fyrri fasa og SF5CF3 í seinni fasa. CO2 og CO2/H2S blöndurnar voru leystar í vatni og þeim dælt niður með ferilefnum í geymslubergið. Því næst voru sýni tekin úr nálægum eftirlitsholum og þau greind til að nema ferilefni, 14C, uppleyst ólífrænt kolefni (DIC) og pH gildi. Aukning í ferilefnamagni sýnanna staðfestir komu niðurdælingarvökvans í eftirlitsholur.

Samanburður á styrk 14C sýnir árangursríka steindabindingu. Tímaruna af viðbúnum gildum (fylltir hringir) á móti mældum gildum (ferningar) á 14C (Bq/lítra) í eftirlitsholu HN04 sýnir að >95% af CO2 sem var dælt niður breyttist í karbónat steindir innan tveggja ára. Skyggðu svæðin gefa til kynna fyrsta og annan fasa niðurdælingar (frá Matter et al., 2016).

Afdrif CO2 sem var dælt niður er magngreint með massajafnvægisreikningum. Reiknaður styrkur DIC og 14C er mun meiri en mældur styrkur rá sýnatökum sem gefur til kynna tap á DIC og 14C á leið frá niðurdælingarholu að eftirlitsholu. Munur milli reiknaðs og mælds DIC og 14C bendir til að >95% af CO2 sem er dælt niður breytist í stein með hvörfum milli vatns, CO2 og basalts á innan við tveimur árum.

Þar að auki hafa kalsíum samsætu rannsóknir verið notaðar bæði fyrir og eftir niðurdælingu CO2 til að magngreina umfang karbónats útfellingu fyrir kolefnisgeymslu. Kalsíum samsætu rannsóknir sýna að um 93% af uppleysta kalsíum ummyndast í kalsít steindir á meðan ákveðnum niðurdælingarfösum stendur (von Strandmann et al., 2019).

Hægt er að sækja borkjarna frá neðanjarðar til að meta hvort steinrenning hafi tekist. Hins vegar getur borun verið dýr og tímafrek þar sem hún þarf að vera frá ákveðnu dýpi og steindirnar sem myndast eru fín-kornuð og dreifð á stóru svæði.

Jarðskjálftavöktun

Vöktun á skjálftavirkni á meðan niðurdælingu stendur er mikilvæg til að viðhalda traustu almenningsáliti. Sjálfstætt mat á áhættu vegna skjálftavirkni er framkvæmt við undirbúning niðurdælingar. Staðbundið jarðskjálftanet er starfrækt til að vakta nákvæmlega jarðskjálfta á svæðinu sem er að auki tengt völdum stöðvum úr varanlega jarðskjálftavöktunarneti Íslands.

Niðurdælingarsvæði eru vöktuð fyrir og á meðan undirbúningi vegna borunar á borholum stendur yfir. Þar að auki eru geymslusvæðin venjulega byggð í skrefum svo hægt sé að bregðast við ef svo ólíklega vill til að vart verði við skjálfta.

Svokallað umferðarljósakerfi er notað til að meta skjálftavirkni á meðan niðurdælingar aðgerðum stendur. Sú aðferð hefur verið sannreynd og var þróuð til að minnka hættu á örvaðri skjálftavirkni. Hún hefur verið í notkun í niðurdælingarkerfinu á Hellisheiði frá 2012. Kerfið byggist á að stjórna og aðlaga flæðishraða í niðurdælingarkerfinu til að halda skjálftavirkni í lágmarki.