Hoppa yfir valmynd

02.11.2022

Rannsóknarboranir í Straumsvík vegna Coda Terminal

Carbfix mun á næstu dögum hefja rannsóknarboranir við Straumsvík í tengslum við fyrirhugaða móttöku- og förgunarstöð fyrirtækisins fyrir CO2. Boranirnar verða á lóð Rio Tinto á Íslandi, á skilgreindu iðnaðarsvæði.

Carbfix mun á næstu dögum hefja rannsóknarboranir við Straumsvík í tengslum við fyrirhugaða móttöku- og förgunarstöð fyrirtækisins fyrir CO2. Boranirnar verða á lóð Rio Tinto á Íslandi, á skilgreindu iðnaðarsvæði.

Carbfix áformar sem kunnugt er að reisa móttöku- og förgunarstöð fyrir CO2 í Straumsvík sem nefnist Coda Terminal. Ráðgert er að fyrsti áfangi hennar taki til starfa 2026 og að hún nái fullum afköstum, eða 3 milljónum tonna á ári af CO2, árið 2031.

Tilgangur rannsóknarborana er að auka þekkingu á jarðlögum á svæðinu og fá nákvæmari upplýsingar um aðstæður til varanlegrar bindingar á CO2 í jarðlögum með Carbfix-tækninni. 

Framkvæmdin felur í sér borun á þremur rannsóknarholum, auk þess sem malarplön verða útbúin undir borteiga og stuttir vegslóðar lagðir að þeim.

Gerð fyrstu rannsóknarholunnar af þremur hefst á allra næstu dögum. Hún verður staðsett skammt sunnan Reykjanesbrautar gegnt vestari enda álversins. Áætlað er að borun hennar taki um fjórar til átta vikur. Síðar verða gerðar tvær rannsóknarholur til viðbótar; önnur nálægt þeirri fyrstu en hin austan við álverið, norðan Reykjanesbrautar.

Leyfi er fyrir framkvæmdinni frá umhverfis- og skipulagssviði Hafnarfjarðar. Hún er ekki háð mati á umhverfisáhrifum og ekki er gert ráð fyrir að hún hafi í för með sér neikvæð umhverfisáhrif eða feli í sér teljandi truflun.

Lögð er áhersla á að gagnsæi ríki um undirbúning og framkvæmdir við Coda Terminal. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefnum www.carbfix.com/is/codaterminal og hægt er að senda fyrirspurnir og ábendingar um verkefnið á netfangið carbfix@carbfix.com

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.