Hoppa yfir valmynd

08.09.2021

Risastórt skref stigið með opnun Orca í dag

Risastórt skref var stigið í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði í dag þegar Orca, lofthreinsi- og förgunarstöð Climeworks, hóf starfsemi sína. Um er að ræða gríðarstóran áfanga í beinni loftföngun en stöðin getur fangað 4.000 tonn af CO2 á ári hverju, sem hún fjarlægir beint úr andrúmsloftinu á öruggan hátt. Náttúrulegri förgunaraðferð Carbfix er síðan beitt og CO2 þannig breytt í stein.

Það mátti heyra og sjá á þeim sem tóku til máls að miklar vonir eru bundnar við Orca en Climeworks stefnir á að geta fangað megatonn fyrir síðari hluta þessa áratugar, sem byggir á þessari leiðandi lausn sem er jafnframt sú loftföungartækni sem auðveldast er að skala upp.

Ísland býður uppá kjöraðstæður fyrir þennan nýja græna iðnað með sinnni endurnýjanlegu orku og hagkvæmri förgun á CO2 með Carbfix tækninni.

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrum forseti opnaði fundinn en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tóku einnig til máls. Þá fóru þeir Jan Wurzbacher og Christoph Gebald stofnendur Climeworks yfir þá ótrúlegu vegferð sem að baki stöðinni liggur. Þökkuðu þeir Carbfix og ON Power sérstaklega fyrir að gera draum þeirra að veruleika.

 ”Orca er stór áfangi í iðnaði loftföngunar, og hún er fyrirmynd að frekari stækkun Climeworks sem er bæði sveigjanleg, skalanleg og auðvelt að endurtaka. Með þessum árangri erum við tilbúin að auka hratt við föngunargetu okkar á næstu árum. Markmiðið um að ná kolefnishlutleysi á alþjóðavísu er enn fjarlægt, en með Orca teljum við að við höfum tekið stórt skref í áttina að því markmiði,“ sagði Jan við tilefnið í morgun.

Hér má finna streymið á viðburðinn í dag.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.