Hoppa yfir valmynd

11.05.2023

Samstarfsyfirlýsing Carbfix og Aker Carbon Capture

Carbfix og Aker Carbon Capture hafa endurnýjað samstarf sitt sem miðar að því að nýta tækni fyrirtækjanna til að bjóða alla virðiskeðju kolefnisföngunar og -bindingar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Samstarfsyfirlýsingin gildir í tvö ár og útilokar ekki samstarf við aðra aðila.

Norrænu fyrirtækin tvö, sem eru hvort um sig leiðandi á sínu sviði, hyggjast vinna saman að því að fanga og binda á bilinu 100.000 tonn til 1 milljón tonna af CO2 á ári, einkum frá iðnaði þar sem kolefnisföngun og -binding er jafnvel eina raunhæfa leiðin til að draga úr losun, sem gildir til að mynda um sementsframleiðslu, stál- og álframleiðslu og orkuvinnslu úr úrgangi.

Carbfix tæknin felur í sér að CO2 er leyst í vatni og því dælt í basaltberglög þar sem náttúrulegir ferlar umbreyta því varanlega í steindir á innan við tveimur árum.

Samstarfið við Carbfix endurspeglar skýran metnað til að dýpka samvinnu fyrirtækjanna og stuðla að framþróun kolefnisföngunar og -bindingar í Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir Jon Christopher Knudsen, yfirmaður viðskipta hjá Aker Carbon Capture. „Saman getum við boðið iðnfyrirtækjum alla virðiskeðjuna sem felst í að fanga CO2 og binda það síðan varanlega með því að breyta því í steindir neðanjarðar.“

„Markmið Carbfix er að opna fleiri iðnfyrirtækjum aðgang að tækni okkar, annað hvort með því að fanga og binda CO2-losun frá þeim á staðnum eða flytja CO2 frá þeim til móttökustöðva. Samstarfið við Aker Carbon Capture gerir okkur kleift að ná til fleiri viðskiptavina og opnar möguleika á að bjóða þeim alla virðiskeðjuna þar sem það á við,“ segir Kristinn Ingi Lárusson, yfirmaður viðskipta hjá Carbfix.

Carbfix hefur í meira en 10 ár bundið CO2 í berglögum á Hellisheiði, með öðrum orðum: breytt því í stein. Alls hefur Carbfix þannig bundið yfir 90.000 tonn af CO2 sem fangað var frá Hellisheiðarvirkjun. Stærsta verkefni Carbfix um þessar mundir er Coda Terminal, eða Sódastöðin, fyrirhuguð miðstöð fyrir móttöku og bindingu á CO2 í Straumsvík, sem yrði sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Verkefnið hlaut í fyrra um 16 milljarða styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópu. Gert er ráð fyrir að fullbyggð geti Sódastöðin bundið 3 milljónir tonna af CO2 á ári en hún verður reist í áföngum.

Aker Carbon Capture hefur þróað og innleitt tækni til kolefnisföngunar sem beita má bæði í eldri og nýjum verksmiðjum sem losa CO2. Alls er um 60 þúsund klukkustunda reynsla komi á tæknina í margvíslegum iðnaði. Stærstu verkefni fyrirtækisins eru Brevik og Twence, stór kolefnisföngunarverkefni í Evrópu sem bæði eru á framkvæmdastigi. Í síðasta mánuði bætti fyrirtækið við nýrri kynslóð föngunarbúnaðar sem ætlaður er meðalstórum og stórum iðnfyrirtækjum. Fyrirtækið hefur leiðandi markaðsstöðu í Norður-Evrópu og hyggur á vöxt í Norður-Ameríku með öflugum samstarfsaðilum.

Í júlí 2021 tóku bæði fyrirtækin höndum saman með Elkem á Íslandi um það markmið að draga úr kolefnislosun verksmiðju Elkem á Grundartanga með föngun og bindingu í jarðlögum. Ný samstarfsyfirlýsing Carbfix og Aker Carbon Capture lýtur að sameiginlegum áherslum fyrirtækjanna um að bjóða lausnir fyrir föngun og bindingu iðnaðarlosunar í Evrópu og Norður-Ameríku, ýmist í nágrenni við viðkomandi iðnfyrirtæki eða með uppbyggingu móttökustöðva fyrir CO2 sem yrði flutt þangað. Þá hafa Aker Carbon Capture og Elkem hafið prófanir á kolefnisföngun við verksmiðju Elkem í Rana í Noregi.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.