Hoppa yfir valmynd

08.05.2025

Stærsta lofthreinsistöð heims ræst á Hellisheiði

Stærsta lofthreinsistöð heims hefur verið ræst á Hellisheiði. Hún mun fullbyggð geta fangað allt að 36 þúsund tonn af koldíoxíði (CO2) á ári beint úr andrúmsloftinu.

Stöðin kallast Mammoth og er hönnuð og byggð af svissneska fyrirtækinu Climeworks, sem er brautryðjandi í heiminum á sviði lofthreinsitækni.

Carbfix tekur við því CO2 sem stöðin fangar og bindur það á varanlegan og öruggan hátt með því að dæla því djúpt niður í jarðlög þar sem það umbreytist á skömmum tíma í steindir með náttúrulegu ferli.

Óumdeilt er að loftslagsmarkmið heimsins geta aðeins náðst með því að CO2 verði fangað beint úr andrúmsloftinu í stórum stíl og bundið varanlega, til viðbótar við að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Carbfix og Climeworks hafa átt í góðu samstarfi um langt árabil. Fyrir er á Hellisheiði minni lofthreinsistöð á vegum Climeworks sem nefnist Orca og tók til starfa haustið 2021. Föngun og binding kolefnis á vegum Climeworks og Carbfix á Hellisheiði er sannreynd af alþjóðlega gæðavottunarfyrirtækinu DNV.

Carbfix hefur einnig í meira en áratug bundið CO2sem fangað er úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar Orku náttúrunnar og í fyrra tók Carbfix fyrstu skrefin í bindingu á CO2 sem fangað er frá Nesjavallavirkjun.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.