Umhverfismat Hellisheiði
Skipulagsstofnun auglýsir nú Umhverfismatsskýrslu fyrir niðurdælingu á koldíoxíði (CO2) til geymslu á Hellisheiði. Umhverfismatið er fyrsta sinna tegundar hérlendis og er öllum heimilt að veita umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar á kynningartíma sem stendur til 17. mars 2023. Hægt er að senda inn umsögn með því að senda tölvupóst á skipulag@skipulag.is. Við hvetjum öll til að kynna sér framkvæmdina og umhverfisáhrif hennnar. Mannvit var Carbfix til ráðgjafar um umhverfismatið. Hér er linkur á umhverfismat niðurdælingar CO2 á Hellisheiði.
Hvað er verið að meta?
Carbfix hf. áformar niðurdælingu á allt að 406 þúsund tonnum af koldíoxíði (CO2) á ári í borholur til geymslu í jarðlögum á Hellisheiði í Sveitarfélaginu Ölfusi. Þetta er fyrsta umhverfismat sinnar tegundar á Íslandi og hvetur Carbfix öll sem áhuga hafa að kynna sér framkvæmdina.
Niðurdælingá CO2 og H2S frá hreinsistöð Hellisheiðarvirkjunar í jarðlög með aðferð Carbfix hefur átt sér stað í Húsmúla við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2012 og því komin áratugsreynsla á framkvæmdina á þessu svæði.
Auk niðurdælingar frá hreinsistöð Hellisheiðarvirkjunar hefur Carbfix dælt niður CO2 úr andrúmslofti, í samstarfi Climeworks frá 2017. Haustið 2021 var lofthreinsiveriðOrca tekið í notkun og er CO2 frá því dælt niður í Þrengslum við Suðurlandsveg.
(Myndin hér að ofan sýnir yfirlitsmynd af svæðinu)
Nánar um umhverfismatið
Gert er ráð fyrir að starfsemi Carbfix við Hellisheiðarvirkjun verði í Húsmúla, Jarðhitagarði Orku náttúrunnar, Sleggjubeinsdal, Þrengslum og við Gráuhnúka. Áform Carbfix á Hellisheiði eru þrenns konar:
- Í fyrsta lagi verður allt að 47.000 tonnum CO2 og allt að 11.000 tonnum brennisteinsvetni (H2S), sem fangað verður í núverandi og nýrri hreinsistöð úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar, dælt niður í Húsmúla í djúpkerfi geymslusvæðisins. Framkvæmdin er hluti af svokölluðu Silfurbergsverkefni sem hlotið hefur styrk Nýsköpunarsjóðs Evrópusambandsins og má lesa frekar um hér: https://www.or.is/en/environment/project-silverstone/
- Í öðru lagi er gert ráð fyrir niðurdælingu á CO2 úr andrúmslofti frá lofthreinsiverum í Jarðhitagarði í millikerfi geymslusvæðisins á allt að 44.000 tonnum á ári frá tveimur lofthreinsiverum Climeworks, Orca og Mammoth. Hér er hægt að lesa nánar um verkefni Climeworks á Hellisheiði: https://climeworks.com/direct-air-capture Auk þess áforma Carbfix og ON að setja upp þróunarmiðstöð fyrir lofthreinsitækni fyrir niðurdælingu allt að 15.000 tonna af CO2 á ári.
- Í þriðja lagi er gert ráð fyrir niðurdælingu í nýjar holur í Jarðhitagarði, Húsmúla, Sleggjubeinsdal, Þrengslum eða við Gráuhnúka allt að 300.000 tonna á ári af CO2 í millikerfi, úr andrúmslofti frá nýjum aðilum, frá nýrri starfsemi á athafnasvæði ON eða CO2 fluttu á staðinn.
Hvernig virkar Carbfix tæknin?
Carbfix tæknin varð til sem rannsóknarverkefni árið 2007 í samstarfi Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, Columbia University í New York og CNRS í Toulouse. Carbfix tæknin felst í svokallaðri steindabindingu þar sem CO2 leystu í vatni er dælt niður í basaltberglög um niðurdælingarholur. Þegar niðurdælingarvökvinn flæðir út í basaltberggrunninn leysast málmar á borð við kalsíum, magnesíum og járn úr basaltinu, sem ganga í efnasamband við CO2 og falla út sem karbónatsteindir. Karbónatsteindirnar eru stöðugar í milljónir ára, en Carbfix hefur sýnt fram á að yfir 95% af niðurdældu CO2 steinrennist á innan við tveimur árum. Hér er hægt að lesa meira um Carbfix tæknina og hvernig hún virkar.
Markmið og forsendur framkvæmdar
Framkvæmdin verður á Hellisheiði þar sem allir innviðir, þekking og reynsla eru til staðar. Markmið framkvæmdarinnar er að auka umfang og tryggja framtíð niðurdælingar CO2 í jarðlög til steinrenningar á geymslusvæði Carbfix á Hellisheiði. Framkvæmdin er forsenda þess að Hellisheiðarvirkjun geti verið sporlaus, með niðurdælingu CO2 og H2S úr útblæstri virkjunarinnar í djúpkerfi geymslusvæðisins.
Einnig er hún forsenda reksturs lofthreinsivera Climeworks og þróunarmiðstöðvar í lofthreinsitækni, sem munu afhenda Carbfix CO2 til niðurdælingar í millikerfi geymslusvæðisins. Framkvæmd Carbfix mun auk þess gera nýjum aðilum kleift að afhenda Carbfix CO2 til niðurdælingar í millikerfi geymslusvæðisins. Hér má sjá yfirlitsmynd framkvæmda Carbfix á Hellisheiði:
Algengar spurningar
Framkvæmdin
Niðurdæling CO2 í borholur til geymslu í jarðlögum felur í sér:
- Niðurdælingarholur.
- Vöktunarholur.
- Stjórnbyggingar.
- Kúluhús.
- Lagnir.
Niðurdæling CO2 fer fram á svokölluðum borsvæðum þar sem niðurdælingarholur eru staðsettar. Niðurdælingarholan er með skýli, sem er oft kallað kúluhús, til að skýla niðurdælingarbúnaði. Kúluhús má sjá víða í tengslum við jarðvarmavirkjanir, t.d. á Hellisheiði og Nesjavöllum.
Auk niðurdælingarhola eru boraðar vöktunarholur þar sem meðal annars er fylgst með afdrifum CO2 í geymslugeyminum. Hugsanlega eru reist kúluhús á vöktunarholum sem ráðgerðar eru innan lóða. Þar sem ekki eru kúluhús er eingöngu holutoppur sýnilegur á yfirborði. Loks er gert ráð fyrir að Carbfix reisi stjórnbyggingar nálægt niðurdælingarbúnaði, sem geta verið allt að 50-100 m2.
Aðilar sem senda Carbfix CO2 til niðurdælingar leggja lagnir að niðurdælingarkerfi Carbfix. Um er að ræða t.d. gaslagnir eða gashlaðnar vatnslagnir og raflagnir. Carbfix leggur aftur á móti stutta lögn frá holutoppi að rennslismæli sem liggur um það bil 5-10 m frá holutoppi.
Verkefni Carbfix við niðurdælingu CO2 á Hellisheiði verði skipt upp í þrjá framkvæmdaáfanga hvað varðar tímaröð.
Fyrsti áfangi telur niðurdælingu allt að 44.000 tonna á ári af CO2 í millikerfi í Jarðhitagarði og í Þrengslum frá Orca lofthreinsiveri Climeworks sem hóf starfsemi í rannsóknar- og þróunarskyni í september 2021 og Mammoth lofthreinsiveri Climeworks sem gert er ráð fyrir að verði komið í full afköst í lok árs 2024. Í fyrsta áfanga er einnig gert ráð fyrir gangsetningu Þróunarmiðstöðvar fyrir lofthreinsitækni í Jarðhitagarði og niðurdælingu allt að 15.000 tonna af CO2 á ári í millikerfi í Jarðhitagarði eða í Sleggjubeinsdal.
Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir niðurdælingu á CO2 og H2S í djúpkerfi frá nýrri hreinsistöð ON við Hellisheiðarvirkjun og ráðgert að hún verði gangsett í árslok 2024. Að því loknu verður allt að 47.000 tonnum á ári af CO2 og allt að 11.000 tonnum á ári af H2S úr útblæstri virkjunarinnar dælt niður í djúpkerfi geymslusvæðis Carbfix. Niðurdæling í djúpkerfi og vöktun verður í sömu holur og verið hefur.
Í þriðja áfanga er gert ráð fyrir gangsetningu verkefna í áföngum frá og með árinu 2025 vegna niðurdælingar frá einum eða fleiri nýjum aðilum í millikerfi á geymslusvæði Carbfix. Gert er ráð fyrir fullum afköstum niðurdælingar, allt að 300.000 tonn af CO2 á ári, kringum 2030. Allt að 18 nýjar niðurdælingarholur og sjö nýjar vöktunarholur verða boraðar í þriðja áfanga.
Umhverfið
Umhverfismat framkvæmdar
Í umhverfismatinu er gerð grein fyrir mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar og reksturs geymslusvæðis Carbfix á
- geymslugeyminn
- grunnvatn
- jarðskjálftavirkni og loftslag.
Áhrifasvæði á yfirborði vegna niðurdælingar CO2 á geymslusvæði Carbfix á Hellisheiði er um 4 km2. Bein áhrif verða á svæði sem fer undir byggingar, borholur, lagnir fyrir rafmagn, gas og vatn og önnur mannvirki. Áhrifasvæði niðurdælingar CO2 til geymslu í jarðlögum mun ná yfir stærra svæði undir yfirborði og var áætlað um 42 km2 í matsáætlun. Áhrifa á jarðskjálftavirkni tengt niðurdælingu getur mögulega gætt í talsverðri fjarlægð frá upptökum skjálfta. Athugunarsvæði umhverfismats vegna mats á áhrifum niðurdælingar og geymslu CO2 í jarðlögum miðast annars vegar áhrif á yfirborði og hins vegar áhrif undir yfirborði.
Ekki er talið að framkvæmdin hafi áhrif á gróður, fugla, jarðmyndanir, landslag, ásýnd, fornleifar, hljóðvist, samfélag og landnotkun.
Áhrif á geymslugeyminn
Mat á áhrifum niðurdælingar CO2 og H2S í djúpkerfi og niðurdælingar CO2 í millikerfi til geymslu í jarðlögum á Hellisheiði á geymslugeyminn byggir á sérfræðiskýrslum ÍSOR og Carbfix um grunnástand geymslusvæðisins og forðafræðilíkangerð, ásamt mati á breytingum á geymslugeyminum sem kunna að fylgja niðurdælingu CO2.
Forðafræðilíkan var notað til að herma flæði á CO2 hlöðnu í vatni um geymslugeyminn og spá fyrir um áhrif niðurdælingar miðað við að engin steinrenning CO2 eigi sér stað. Þannig fæst mat á mestu mögulegu dreifingu CO2 um jarðlögin og hámarksáhrif niðurdælingar CO2. Niðurdæling á CO2 á Hellisheiði verður annars vegar í geymslugeymi í svokallað millikerfi og hins vegar í geymslugeymi í djúpkerfi.
NiðurdælingCarbfix á Hellisheiði miðar í öllum tilvikum að því að dæla í millikerfið, ef frá er skilin niðurdæling á jarðhitagasi, CO2 og H2S, úr úblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Millikerfið sem er aðskilið frá efsta grunnvatnskerfinu á Hellisheiði með þéttara móbergslagi, er á um 300 til 700-1000 m dýpi og er farið að gæta jarðhitaáhrifa á þessu dýpi.
Neðri mörk millikerfisins markast af háhitakerfinu sjálfu en skilgreind mörk milllikerfis og djúpkerfis miðast við lágviðnámskápu sem umlykur háviðnámskjarna við kortlagningu háhitakerfisins. Djúpkerfi geymslusvæðis Carbfix er neðan þessarar lágviðnámskápu. Öllum jarðhitavökva frá Hellisheiðarvirkjun er dælt niður í djúpkerfið í 1800-2500 m djúpar niðurdælingarholur. Carbfix hefur dælt niður CO2 ásamt H2S í tvær þeirra frá árinu 2014.
Gert er ráð fyrir að Carbfix dæli niður í djúpkerfi í Húsmúla allt að 47.000 tonn CO2 á ári og allt að 11.000 tonn H2S á ár úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar frá núverandi og nýrri hreinsistöð ON. Gasið verður leyst í þétti- og skiljuvatni sem nú þegar er dælt í niðurdælingarholur ON. Forðafræðilíkan fyrir þrjár sviðsmyndir miðað við hvaða niðurdælingarholur ON yrðu notaðar, sýna að eftir niðurdælingu CO2 í 30 ár er CO2 aflokað í djúpkerfinu og leysnibindingu er viðhaldið. Sömu sögu er að segja um H2S. Ekkert CO2 mun berast í grunnvatn ofan 100 m.u.s.
Áhrif niðurdælingar allt að 47.000 tonna af CO2 á ári úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar í djúpkerfi geymslusvæðis á Hellisheiði á geymslugeymi millikerfis og djúpkerfis eru metin óveruleg.
Áhrif niðurdælingar á CO2 úr andrúmslofti frá lofthreinsiverum í Jarðhitagarði í millikerfi
Carbfix gerir ráð fyrir niðurdælingu í millikerfi í Jarðhitagarði á allt að 59.000 tonnum af CO2 úr andrúmslofti árlega frá Orca og Mammoth lofthreinsiverum Climeworks og þróunarmiðstöð í lofthreinsitækni. Forðafræðilíkan sem nýtt var til að spá fyrir um dreifingu á CO2 hlöðnu vatni frá niðurdælingu allt að 359.000 tonna á ári í 30 ár í millikerfi, eða 300.000 tonnum meira árlega en Carbfix gerir ráð fyrir að dæla niður frá lofthreinsiverum í Jarðhitagarði, sýnir að CO2 dreifist ekki til brunnsvæðis vatnsbólsins í Engidal og að leysnibindingu verður alltaf viðhaldið í geymslugeyminum.
Því er ekki búist við að CO2 uppleyst í vatni eða á gasformi geti streymt út fyrir millikerfið og upp til yfirborðs. Skoðaðar voru þrjár meginsviðsmyndir miðað við mismunandi borsvæði, en allar sviðsmyndir sýna að tryggt verður að geymsla CO2 takmarkist við millikerfið og að CO2 berist því hvorki í grunnvatnskerfið né í djúpkerfi. Þá eru litlar líkur taldar á að hita- og þrýstingsbreytingar hafi áhrif á vatns- eða jarðhitavinnslu. Með niðurdælingu CO2 í niður í millikerfi til geymslu í jarðlögum verður dregið úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og komið í veg fyrir neikvæð áhrif á loftslag.
Áhrif niðurdælingar í millikerfi allt að 59.000 tonna CO2 sem fangað verður úr andrúmslofti árlega á Hellisheiði í 30 ár á geymslugeymi millikerfis og djúpkerfis er metin óveruleg.
Áhrif niðurdælingar á CO2 úr andrúmslofti frá nýjum aðilum í millikerfi.
Áform Carbfix gera ráð fyrir niðurdælingu á allt að 300.000 tonnum af CO2 á ári úr andrúmslofti frá nýjum aðilum eða frá nýrri starfsemi á, eða flutt á staðinn til niðurdælingar í millikerfi. Dælt verður niður í nýjar holur á borsvæðum í geymslusvæðisins á Hellisheiði. Hér að framan kemur fram að forðafræðilíkan var nýtt til að spá fyrir um dreifingu CO2 miðað við hámarksniðurdælingu í 30 ár í millikerfi á geymslusvæði Carbfix, eða allt að 359.000 tonn/ári.
Það samsvarar öllu CO2 frá lofthreinsiverum sem verður dælt niður í Jarðhitagarði ásamt CO2 frá nýjum aðilum sem áætlað er að dæla niður í millikerfi geymslusvæðisins. Niðurstaða um umhverfismats þessara verkefna er hin saman. Með niðurdælingu CO2 í niður í millikerfi til geymslu í jarðlögum verður dregið úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og komið í veg fyrir neikvæð áhrif á loftslag.
Áhrif niðurdælingar Carbfix á allt að 300.000 tonnum CO2 á Hellisheiði árlega frá nýjum aðilum í millikerfi í 30 ár á Hellisheiði á geymslugeymi millikerfis og djúpkerfis eru metin óveruleg.
Mat á áhrifum niðurdælingar og geymslu CO2 í djúpkerfi og millikerfi geymslusvæðis Carbfix á Hellisheiði á grunnvatn byggir á sérfræðiskýrslum Orkuveitu Reykjavíkur um grunnvatnslög ofan hins eiginlega jarðhitakerfis. Jafnframt byggir það á skýrslu sérfræðinga Carbfix um grunnástand geymslusvæðisins, forðafræðilíkangerð fyrir niðurdælingu CO2 í millikerfi og djúpkerfi, ásamt hugsanlegum breytingum sem fylgja framkvæmdinni.
Áhrif framkvæmdar við niðurdælingu CO2 til geymslu í jörðu á Hellisheiði á grunnvatn á framkvæmdatíma eru metin óveruleg. Óhapp hefði tímabundin og staðbundin áhrif á grunnvatn en með búnaði og viðbragðsaðgerðum er komið í veg fyrir að þau verði alvarleg.
Niðurdæling á CO2 leystu í vatni úr lofthreinsiveri Mammoth gæti haft tímabundin og staðbundin neikvæð áhrif á styrk járns, ammóníum og heildarmagns lífræns kolefnis í grunnvatni í millikerfinu. Einnig er möguleiki á tímabundnum og staðbundnum neikvæðum áhrifum á styrk efna eins og kalsíum, magnesíum, járns, snefilefna og þungmálma í grunnvatni millikerfis og djúpkerfis næst niðurdælingarholum. Fyrirhugað er að nýta vatn frá kæliturnum Hellisheiðarvirkjunar, sem nú er fargað um grunnar svelgholur í nágrenni virkjunarinnar, til niðurdælingar í 300-800 m djúpar holur í millikerfi geymslusvæðis Carbfix. Sú breyting að minnka losun kælivatns í efstu grunnvatnslög hefur staðbundið talsvert jákvæð áhrif á grunnvatn. Niðurstöður reikninga í forðafræðilíkani eru að niðurdælt CO2 muni ekki berast í efra grunnvatnskerfi eða vatnsból eftir 30 ára hámarksniðurdælingu, þ.e. 47.000 tonn á ári í djúpkerfi og 359,000 tonn á ári í millikerfi á geymslusvæði Carbfix.
Áhrif niðurdælingar CO2 á geymslusvæði Carbfix á Hellisheiði, á grunnvatn og vatnsból á rekstrartíma eru metin óveruleg.
Mat á áhrifum niðurdælingar CO2 í millikerfi og djúpkerfi geymslusvæðis Carbfix á Hellisheiði á jarðskjálftavirkni og mat á jarðskjálftahættu byggir á sérfræðiskýrslu Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR). Möguleg náttúruvá á geymslusvæði Carbfix á Hellisheiði tengist fyrst og fremst jarðskjálftum.
Á framkvæmdatíma er búist við óverulegum áhrifum á jarðskjálftavirkni á geymslusvæði Carbfix. Talið er að hætta sé á finnanlegri jarðskjálftavirkni á rekstrartíma vegna niðurdælingar CO2 í djúpkerfi í Húsmúla. Áhrif niðurædlingar CO2 í djúpkerfi á jarðskjálftavirkni eftir skilgreindar mótvægisaðgerðir eru metin óveruleg. Hætta á finnanlegri jarðskjálftavirkni á rekstrartíma er talin óveruleg vegna niðurdælingar CO2 í millikerfi, á geymslusvæði Carbix á Hellisheiði. Áhrif niðurdælingar CO2 á rekstrartíma á jarðskjálftavirkni, hvort heldur er í djúpkerfi og millikerfi, eru metin óveruleg.
Markmið framkvæmdar Carbfix er að auka umfang og tryggja framtíð niðurdælingar CO2 til geymslu í jarðlögum á Hellisheiði. Með Carbfix tækninni umbreytist niðurdælt CO2 leyst í vatni í steindir og binst varanlega djúpt í jarðlögum. Ef öll fyrirhuguð áform Carbfix eru tekin saman, verður allt að 406.000 tonnum CO2 á ári dælt niður til geymslu í jarðlögum á Hellisheiði. Það mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft á landsvísu auk þess sem CO2 verður hreinsað ú randrúmslofti í lofthreinsiverum. Verkefni Carbfix styður við loftslagsmarkmið íslenskra stjórnvalda og alþjóðleg markmið og alþjóðasamninga. Áhrif niðurdælingar á CO2 á Hellisheiði á loftslag, eru metin verulega jákvæð.
Mótvægisaðgerðir, stýring og vöktun
Mótvægisaðgerðir eða áherslur til þess að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum á hvern og einn umhverfisþátt eru sett fram í þeim tilgangi að halda umhverfisáhrifum í lágmarki. Carbfix mun taka mið af reglum Orkustofnunar nr. OS-2016-R01-01, um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar vökva djúpkerfi. Þá verður niðurdæling CO2 í millikerfi í jarðhitagarði og öðrum fyrirhuguðum borsvæðum á geymslusvæðinu á Hellisheiði aukin í skrefum og fylgst vel með jarðskjálftavirkni.
Ítarlegar stýringar- og vöktunaráætlanir, sem verða uppfærðar reglulega, liggja fyrir vegna niðurdælingar CO2 á geymslusvæði Carbfix á Hellisheiði. Tilgangurinn er að tryggja öruggan og skilvirkan rekstur allra kerfa, gera grein fyrir magni niðurdælds CO2 og vakta afdrif þess í geymslugeyminum. Þættirnir sem verða vaktaðir eru: Geymslugeymir, grunnvatn, yfirborð geymslusvæðis, jarðskjálftavirkni og niðurdælingarkerfi.
Samráð
Samráð í umhverfismati
Skrefin í umhverfismatsferlinu eru nokkur og mögulegt að koma athugasemdum á framfæri á mismunandi stigum í ferlinu:
1. Forsamráð við Skipulagsstofnun og leyfisveitendur og samkomulagi hlutaðeigandi aðila um tilhögun umhverfismatsins, fór fram í nóvember og desember árið 2021. Áður hafði framkvæmdin verið kynnt fyrir hagsmunaaðilum í tengslum við mótun löggjafar um geymslu CO2 í jarðlögum.
2. Matsáætlun Carbfix, var lögð fram í febrúar 2022. Skipulagsstofnun kynnti matsáætlunina og birti álit sitt í apríl 2022. Öllum er heimilt að veita umsögn um matsáætlun á kynningartíma hennar. Á kynningartímanum kynnti Carbfix matsáætlunina á opnum streymisfundi. Hér má lesa álit Skipulagsstofnunar á matsáætlun.
3. Umhverfismatsskýrsla þessi sem nú er auglýst er lögð fram af Carbfix og Mannvit. Skipulagsstofnun kynnir skýrsluna og sendir til umsagnaraðila. Opinber kynningartími skýrslunnar er frá 2. febrúar til 17. mars. Á þeim tíma er öllum heimilt að veita um hana umsögn.
Haldinn verður opinn kynningarfundur á vegum Carbfix 21. febrúar 2023 frá 16:00 -18:00 í húsakynnum OR að Bæjarhálsi 1 og eru öll velkomin. Carbfix kynnir einnig umhverfismatsskýrsluna á vef fyrirtækisins og miðlar upplýsingum til leyfisveitenda og helstu hagaðila eftir því sem við. Að loknum kynningartíma fer fram úrvinnsla athugasemda við umhverfismatsskýrslu og vinna Skipulagsstofnunar við gerð álits um umhverfismat framkvæmdarinnar.