Hoppa yfir valmynd

09.07.2021

Carbfix í samstarf við norska kolefnisfangara

Carbfix og norska fyrirtækið Aker Carbon Capture hafa skrifað undir yfirlýsingu um aukið samstarf í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Með því  að sameina tæknilausnir þessara tveggja fyrirtækja er hægt að bjóða iðnfyrirtækjum upp á hagstæða heildarlausn við föngun og förgun á koltvísýringi.

„Við erum spennt fyrir samstarfinu með Aker Carbon Capture. Þar sameinast tvær leiðandi loftslagslausnir sem geta dregið verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda en þörfin fyrir slíkt er nú brýnni en nokkru sinni,” segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. 

 

Carbfix aðferðin sem snýr að kolefnisförgun umbreytir CO2 í stein með því að dæla því niður í basaltberg en um er að ræða hröðun á náttúrulegu ferli. „Basaltbergið sem hentar vel fyrir steinrenningu koldíoxíðs er að finna víða um heim en til að mynda er mikið af því bæði í Evrópu og Norður Ameríku. Carbfix aðferðin opnar því tækifæri fyrir varanlega förgun CO2 á gígatonn skala,“ segir Edda Sif.

„Hinn sterki vísindalegi grunnur sem Carbfix hvílir á fellur mjög vel að föngunartækni okkar en við leggjum áherslu á að hún sé örugg og hafi hvorki áhrif á heilsu fólks né umhverfi,” sagði Valborg Lundegaard, framkvæmdastýra Aker Carbon Capture. „Saman getum við boðið iðnfyrirtækjum upp á heildstæða lausn þegar kemur að föngun og förgun kolefnis með því að umbreyta því í stein neðanjarðar á hagkvæman og öruggan hátt.”

 Með viljayfirlýsingunni er einnig stefnt að því að meta og kanna áhugaverða framtíðarmöguleika til að vinna saman að verkefnum er snúa að föngun og förgun.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.