Hoppa yfir valmynd

Það eru ekki aðeins tré sem binda koldíoxíð í náttúrunni. Gríðarlegt magn af koldíoxíði er náttúrulega bundið í steindum í bergi.

Á undanförnum árum hefur vísindafólki Carbfix tekist að beisla þetta náttúrulega ferli kolefnisbindingar en Carbfix fangar koldíoxíð og aðrar vatnsleysanlegar gastegundir eins og brennisteinsvetni úr útblæstri og bindur í steindir í bergi á umhverfisvænan og arðbæran hátt.

Tilraunaniðurdæling fór fyrst fram við Hellisheiðarvirkjun þar sem rúmlega 90% af koldíoxíðinu sem dælt var niður í bergið umbreyttist í grjót á innan við tveimur árum, en áður var talið að þetta ferli gæti tekið hundruð eða jafnvel þúsundir ára. Carbfix aðferðin hefur nú verið starfrækt í meira en fimm ár sem hluti af hefðbundnum rekstri Hellisheiðarvirkjunar og minnkar CO2 útblástur hennar um þriðjung. Carbfix aðferðin er ekki takmörkuð við jarðhita heldur getur hún nýst í tenglsum við annan mengandi iðnað í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Frá árinu 2017 hefur Carbfix einnig átt í samstarfi við Svissneska fyrirtækið Climeworks. Fyrirtækin hafa í sameiningu rekið tilraunastöð á Hellisheiði þar sem koldíoxíð er fangað beint úr andrúmslofti og dælt niður í jarðlög þar sem það verður að steini. Climeworks hafa þegar tilkynnt aukin umsvif sín á Íslandi í samstarfi við Orku náttúrunnar og Carbfix Ný stöð mun verða reist í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar með getu uppá 4000 tonn af CO2 á ári og taka til starfa árið 2021. Hellisheiði er eini staðurinn í heiminum þar sem koldíoxíð úr andrúmlofti er fangað og fargað.

Carbfix byrjaði upphaflega sem samstarfsverkefni milli Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, CNRS í Touluse og Columbia Háskóla árið 2007 en varð í ársbyrjun 2020 að sjálfstæðu dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið er ekki stofnað í hagnaðarskyni heldur með það að markmiði að sýna samfélagsábyrgð í verki með því að stórauka kolefnisförgun hér á landi og erlendis.

Mörg spennandi verkefni eru fram undan hjá Carbfix.