Hoppa yfir valmynd

CO2-Seastone verkefnið

Carbfix tekur þátt í samstarfsverkefni með ETH í Zürich og University College London þar sem CO2 verður fangað, flutt og fargað með Carbfix aðferðinni og sjávarvatn verður notað í stað ferskvatns.

Koldíoxíðið verður fangað frá útblæstri frá svissneskum iðnaði (steinsteypu og lífrænt gas). Þaðan verður það flutt landleiðina til Rotterdam þar sem því er dælt á skip og flutt til Reykjavíkur. Að lokum er því keyrt á geymslustöðina á Reykjanesi. Áætlað er að tilraunaniðurdælingar hefjist sumarið 2022. Búið er að tryggja aðgang að niðurdælingarholu í eigu HS Orku og tilskilin leyfi fyrir niðurdælingu hafa verið veitt frá yfirvöldum (Umhverfisráðuneyti og Skipulagsstofnun).

Steinrenning CO2 í sjávarvatni í stað ferskvatns hefur verið sannreynd, af Háskóla Íslands og CNRS í Frakklandi, á rannsóknarstofu og í gegnum líkanagerð. Tilraunaniðurdælingar munu staðfesta beitingu sjávarvatns við Carbfix aðferðina. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir möguleika beitingu Carbfix tækninnar um heim allan, sérstaklega á svæðum þar sem skortur er á ferskvatni. Að auki mun þetta verkefni sýna fram á möguleika þess að fanga og flytja CO2 frá meginlandi Evrópu til Íslands, en sú reynsla verður nýtt við Coda verkefni Carbfix. Niðurdælingar í tengslum við það eiga að hefjast 2025.

Grafið sýnir magn ferskvatns og sjávarvatns (við 25°C) sem þarf til að leysa 1 tonn af CO2 sem fall af hlutþrýstingi CO2. Við sjáum að leysni CO2 í sjávarvatni er örlítið minni en í ferskvatni (Snæbjörnsdóttir et al., 2020).

Mögulegar framtíðarútfærslur af kolefnissteindabindingu gætu verið: starfsemi úti á hafi þar sem CO2 er fangað beint úr lofti og dælt niður með Carbfix aðferðinni, starfsemi á landi þar sem CO2 er leyst í ferskvatni fyrir niðurdælingu eða leyst í sjávarvatni og dælt niður. (Snæbjörnsdóttir et al., 2020).

Verkefnið er styrkt af Eurostars og Tækniþróunarsjóði.