Hoppa yfir valmynd

15.03.2024

Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, á lista Reuters fréttastofunnar yfir áhrifamiklar konur í loftslagsmálum

Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, er á lista Reuters yfir20 konur sem eru brautryðjendur í loftslagsmálum sem var birtur nýlega. 

Edda Aradóttir er framkvæmdastýra fyrirtækisins Carbfix sem hefur í yfir áratug tekið við og bundið koldíoxíð (CO2) frá meðal annars Hellisheiðarvirkjun og dælt því niður í basaltlög, þar sem það umbreytist náttúrulega í stein. Þessi aðferð við varanlega og örugga kolefnisbindingu hefur vakið heimsathygli og fylgir þessi viðurkenning Eddu fast á hæla þess að vera nefnd á Time100Climate listann í nóvember á síðasta ári. Á listanum á einnig finna aðra íslenska konu Höllu B. Tómasdóttur forstjóra The B team. Um merkingu þessarar viðurkenningar segir Edda að það skipti máli að grípa tækifærið til þess að láta rödd sína heyrast: 

“Við höfum orðið vitni að alþjóðlegu bakslagi á réttindum kvenna og jafnrétti kynjanna á síðasta áratug og þetta er alvarleg samfélagsleg afturför sem verður að snúa við. Loftslagsbreytingar hafa enn fremur óhóflega mikil áhrif á konur og stúlkur um allan heim, og líf þeirra og heilsa eru þegar farin að verða fyrir alvarlegum skaða. 

Það er lykilatriði að undirstrika hlutverk kvenna í loftslagsmálum til að valdefla okkur og tryggja að við séum þátttakendur í öllum umræðum og ákvarðanatöku. Ég er viss um að líkurnar á árangri í að ná loftslagsmarkmiðum okkar verða mun betri með fjölbreyttum hópi ákvarðanatökuaðila.’’ 

Meðal nýrra verkefna Carbfix er Coda Terminal í Straumsvík, fyrirhuguð stöð fyrir móttöku og bindingu CO2, sem mun geta bundið allt að 3 milljónir tonna af CO2 á ári í bergi á varanlegan, hagkvæman og umhverfisvænan hátt. 

Tilgangur okkar í Carbfix er að hafa raunveruleg jákvæð áhrif á loftslag með öruggum og sönnuðum aðferðum við að binda CO2í stein með því að útvíkka tæknina á heimsvísu. „Aðalmarkmiðið okkar er að koma sem mestu magni af CO2 aftur ofan í jörðina, á öruggan og náttúrulega hátt.“ Hér má sjá allan lista þeirra sem valin voru af Reutre, Trailblazing Women in Climate 2024” 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.