Hoppa yfir valmynd

26.04.2022

Hvað ætlar Carbfix að gera við peningana sem Elon Musk gaf?

ÁDegi jarðar tilkynnti Elon Musk um fimmtán lið sem hlutu eina milljón dollara hvert, eða tæplega 130 milljónir króna, í alþjóðlegri samkeppni á hans vegum um bestu raunhæfu tæknilausnirnar til að fjarlægja koldíoxíð úr andrúmsloftinu.

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Carbfix hlaut ekki aðeins ein heldur tvenn af fimmtán verðlaunum í þessum áfanga keppninnar, þar sem yfir þúsund teymi voru skráð til leiks.

Í nýjustu skýrslu IPCC kemur skýrt fram að heimurinn hefur enga möguleika til að ná loftslagsmarkmiðum sínum án umfangsmikillar kolefnisföngunar og -förgunar. Samhliða því að minnka losun frá iðnaði og orkuframleiðslu þarf að draga koldíoxíð úr andrúmsloftinu með öllum tiltækum leiðum, bæði náttúrulegum á borð við skógrækt og landgræðslu og tæknilegum á borð við lofthreinsiver og förgun.

Lofthreinsiverum má líkja við „öfuga strompa“; tæki sem soga til sín koldíoxíð í stað þess að sleppa því út og hreinsa þannig upp gamlar syndir. Carbfix hlaut XPRIZE verðlaunin í samstarfi við tæknifyrirtæki sem fanga koldíoxíð beint úr andrúmsloftinu með nýstárlegum aðferðum sem sjötíu dómurum samkeppninnar þóttu á meðal þeirra raunhæfustu.

Vert er að skoða helstu ástæður þess að íslenskt fyrirtæki stendur uppi sem sigurvegari í stórri alþjóðlegri samkeppni með áhrifamátt Elon Musk.

Mörg fanga, fá farga

Í reglum keppninnar segir að koldíoxíð skuli fjarlægt varanlega úr andrúmsloftinu. Tæknilausnum sem fanga koldíoxíð beint úr andrúmsloftinu fleygir nú fram sem aldrei fyrr með tilheyrandi samdrætti í kostnaði og orkunotkun. Á sama tíma er skortur á hagkvæmum lausnum til að farga koldíoxíðinu á öruggan og varanlegan hátt. Þegar búið er að fanga það úr andrúmsloftinu blasir nefnilega við vandamálið: Hvað á að gera við það?

Vegna þessa sækjast fjölmörg fyrirtæki eftir samstarfi við Carbfix um að setja upp lofthreinsiver á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Fyrsta lofthreinsiver sinnar tegundar í heiminum, sem reist var af svissneska fyrirtækinu Climeworks í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði síðastliðið haust, vakti heimsathygli. Þessi vegferð hefur rækilega fest Ísland í sessi sem leiðandi í kolefnisförgun og gert gljúpt basalt að áður óþekktri auðlind.

Höfundur er Kári Helgason, forstöðumaður rannsókna og nýsköpunar hjá Carbfix

Birtist 26. April 2022 í Fréttablaðinu

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.