Hoppa yfir valmynd

08.12.2023

Ólafur Elínarson til Carbfix

Ólafur Elínarson mun bætast við ört stækkandi hóp starfsmanna Carbfix á næstu vikum og starfa að samskiptamálum og samfélagstengslum fyrir hönd fyrirtækisins.

Ólafur er með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og var áður aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar félags- og vinnumarkaðsráðherra, sviðsstjóri markaðrannsókna hjá Gallup ásamt því að sinna stundakennslu á háskólastigi. Samhliða mun Ólafur Teitur Guðnason taka að sér nýtt hlutverk hjá Carbfix við að leiða málefni opinberrar stefnumótunar um loftslagsaðgerðir á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.

"Þau eru fá verkefnin sem eru meira aðkallandi en viðbrögð við hamfarahlýnun sem hefur áhrif á okkur öll. Hlutverk Carbfix er gríðarlega mikilvægt í því að bregðast við þeirri framtíð með því að leiða þróun í kolefnisbindingu á árangursríkan hátt og er ég ákaflega spenntur að fá að leggja hönd á plóg með starfsfólki fyrirtækisins," segir Ólafur. 

Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur síðan 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Fyrirtækið hefur vakið heimsathygli, en prýðir til að mynda forsíðu nýjustu útgáfu hins virta tímarits National Geographic. Nánar um Carbfix má finna á www.Carbfix.is

Á síðasta ári var tilkynnt að Coda Terminal verkefni Carbfix, eða „Sódastöðin“, hlaut 16 milljarða íslenskra króna styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og miðar að því að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári með náttúrulegri aðferð í Straumsvík. Nánari upplýsingar um fyrirtækið, tækni þess og verkefni má finna á www.Codaterminal.is

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.