Hoppa yfir valmynd

11.04.2024

ON mun nýta Carbfix tæknina til að ná kolefnishlutleysi  

Í vikunni var þvottaturn, sá fyrsti sinnar tegundar, reistur við Hellisheiðarvirkjun en með tilkomu hans tekst að fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni frá virkjuninni með Carbfix tækninni. 

(jósmynd: Hanna Lilja Jónasdóttir, Carbfix) 

Framkvæmdir við byggingu nýrrar hreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun ganga vonum framar en í vikunni var reistur þvottaturn sem mun, ásamt núverandi hreinsistöð, fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar og dæla því niður í nálæg basaltberglög til varanlegrar steinrenningar með notkun Carbfix tækninnar. 

Uppbygging þvottaturnsins nýtur styrks frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins sem styður við verkefni, sem stuðla að því að ná markmiðum ESB um kolefnishlutleysi 2050. Stefnt er að gangsetningu Steingerðar, sem er heiti stöðvarinnar, á fyrsta ársfjórðungi 2025 og verður Hellisheiðarvirkjun þá á meðal fyrstu jarðvarmavirkjana heims til að verða nær sporlaus. Núverandi hreinsistöð á Hellisheiði sem var tekin í gagnið árið 2014 fangar um 30% koldíoxíðs og 75% brennisteinsvetnis frá virkjuninni. Verkefnið hlaut árið 2021 um

600 milljóna króna styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins. 

 

Öruggt og sannað ferli 

Carbfix hefur þróað tækni fyrir varanlega bindingu CO2 við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007 í samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir.Tæknin felur í sér  að leysa CO2 í vatni og dæla niður í basaltberggrunninn þar sem náttúruleg ferli steinrenna það til frambúðar. Með þessu móti er koldíoxíðið varanlega bundið í steindum djúpt í berggrunninum og þannig komið í veg fyrir áhrif þess á loftslagið. Þess má geta að yfir 99% af kolefni jarðar er náttúrulega bundið í bergi. 

 

Samdráttur í losun á vegum Íslands 

 Niðurstöður verkefnisins munu gagnast til að minnka losun frá öðrum jarðhitavirkjunum, bæði hér á landi og erlendis. Verkefnið styður beint við Aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Eitt og sér, mun verkefnið minnka losun Íslands um 10% í flokknum Orkuframleiðsla og smærri iðnaður í loftslagsáætlun Íslands fyrir árið 2030*. Auk þess er mögulegt að beita tækninni til að minnka losun frá annarri iðnaðarstarfsemi á borð við stálver, sementsframleiðslu og brennslu og urðun sorps. 

 

Um ON:  

Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn á ábyrgan og umhverfisvænan hátt til allra landsmanna. Markmiðið er að gæta hagsmuna auðlinda landsins og viðskiptavina fyrirtækisins með sjálfbærni að leiðarljósi. Þar með styður fyrirtækið við nýsköpun, ábyrga nýtingu auðlindarinnar og flýtir fyrir orkuskiptum með minna vistspori, samfélaginu öllu til heilla. 

 

Um Carbfix:  

Carbfix er brautryðjandi á heimsvísu í bindingu CO2 í bergi neðanjarðar. Fyrirtækið hefur síðan 2012 bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 á Íslandi með eigin tækni sem er örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm. Stefnt er að frekari innleiðingu hennar bæði á Íslandi og erlendis. Nánari upplýsingar um fyrirtækið, tækni þess og verkefni má finna á www.carbfix.com 

*Flokkur C. Sjá Aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum: Aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.