Hoppa yfir valmynd

Rannsóknir og þróun

Carbfix hófst sem vísindalegt rannsóknaverkefni og rannsóknir og þróun eru enn í dag helsti drifkraftur fyrirtækisins.

Sjór

Carbfix hefur þróað aðferð til að leysa koldíoxíð upp í sjávarvatni fyrir niðurdælingu. Þar með opnast nýjar víddir við nýtingu Carbfix tækninnar, til dæmis við strandsvæði og úti á hafi. Myndun steinda hefur verið sannreynd á rannsóknarstofu en vettvangstilraunir munu hefjast árið 2021. Sjá CO2-Seastone verkefnið.

Eiginleikar bergs

Eðlis- og efnafræðilegir eiginleikar ólíkra bergtegunda hafa stór áhrif á steinrenningu CO2. Ferskt basalt, eins og er á Hellisheiði, er hentug bergtegund fyrir Carbfix aðferðina, en aðrar bergtegundir gætu einnig reynst fýsilegar. Reynist þær hentugar er hægt að útfæra Carbfix aðferðina mun víðar, en verið er að kanna þessi mál í GECO verkefninu, sem er hluti af Horizon 2020 áætlun ESB. Tilraunaniðurdælingar verða gerðar í eldra basaltbergi á Íslandi árið 2021.

Nýtni

Carbfix aðferðin krefst bæði vatns og orku. Mikil vinna hefur verið lögð í að auka nýtni á hverju stigi ferlisins. Til að mynda með hermun á upplausn gastegunda undir þrýstingi og rannsóknir á hegðun vökva sem inniheldur lofttegundir sem er dælt í jörðu.

Eftirlit

Nýstárlegar aðferðir hafa verið þróaðar til að fylgjast með hvað verður um kolsýrða vatnið sem er dælt niður, og hversu hratt gastegundirnar breytast í steindir. Meðal aðferða eru reglulegar sýnatökur og sporefnapróf í nálægum eftirlitsbrunnum, samblanda af efnafræðilegri- og sporefnagreiningu, jarðefnafræðilegir útreikningar, ísótópagreining og beinar greiningar á berginu.

Þá er einnig verið að vinna að eftirlitsaðferðum innan verkefna á borð við Evrópuverkefnanna CarbFix2, 24CE og GECO.

GECO

GECO (Geothermal Emission Control) er rannsóknar- og nýsköpunarverkefni, fjármagnað af ESB. Verkefnið miðar að því að framleiðsla raforku í Evrópu, og heiminum öllum, verði hrein, örugg og hagkvæm með engum kolefnis- eða brennisteinsútblæstri. Tilraunaverkefnum verður komið á fót á Íslandi, í Þýskalandi og Tyrklandi.

CarbFix2

Carbfix2 er rannsóknarverkefni sem er fjármagnað af ESB. Verkefnið þróar föngun á óhreinsuðu koldíoxíðstreymi og förgun þess með niðurdælingu. Verkefnið samtvinnar beina loftföngun úr andrúmslofti og steinrenningu með því að sprauta sjávarvatni inn í berglög undir sjávarborði. Með því er hægt að lækka heildarkostnaðinn á öllum stigum föngunar og förgunar.

Science 4 Clean Energy

S4CE er þverfaglegt Evrópuverkefni fyrir grunnrannsóknir á, meðal annars, skilvirkum flutningi, hvarfgetu (e. reactivity) og magngreiningu á útblæstri, jarðskjálftum (e. micro-seismic events), og prófunum á sementshlífum. Rannsóknirnar fara fram hjá Carbfix á Íslandi, í Cornwall á Bretlandi og St. Gallen í Sviss.