Hoppa yfir valmynd

Samráðsvettvangur - Coda Terminal

Samráð er mikilvægur hlekkur í undirbúningi framkvæmda og getur skilað gagnlegum upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir. Íbúar svæðisins og aðrir hagaðilar búa gjarnan yfir staðbundinni þekkingu á umhverfi og aðstæðum sem mikilvægt er að leiða fram við undirbúning verkefna og ná þannig fram sem jákvæðustum áhrifum á umhverfi og samfélag.

Samráðsvettvangur um Coda Terminal

Við hvetjum öll til þess að kynna sér verkefnið Coda Terminal og bendum á að hægt er taka þátt í samráðsferlinu meðal annars í gegnum hagsmunaráð Coda Terminal, almenna kynningarfundi og umhverfismat verkefnisins sem nú stendur yfir.

Hagsmunaráð Coda Terminal

Carbfix hefur sett á stofn hagsmunaráð Coda Terminal en megintilangur þess er að skapa vettvang umræðna milli hagaðila í samfélaginu um uppbyggingu Coda Terminal og ræða hvernig best megi tryggja að framkvæmd og rekstur verkefnisins verði í sátt við samfélagið og til hagsbóta fyrir nærumhverfið.

Carbfix hefur umsjón með hagsmunaráðinu en sú ábyrgð felst m.a. í að kalla eftir tilnefningum í ráðið, undirbúa og boða fundi og sjá um samskipti við fulltrúa þess. Ef þú ert með uppástungu um hagsmunaaðila sem gætu átt erindi í hagsmunaráðið, þá er velkomið að senda tillögu á Carbfix@carbfix.com

Fundargögn frá samráðsfundi Hagsmunaráðs Coda Terminal:

Kynningarfundir Coda Terminal

2021 - Við kynntum til leiks Coda Terminal, eitt umfangsmesta loftslagsverkefni á Íslandi í streyminu frá Grósku á Degi Jarðar, 22. april 2021. Kynningarfundur á Degi Jarðar 22. april

2022 - Við buðum íbúum Hafnarfjarðar á kynningarfund um Carbfix og Coda Terminal verkefnið undir forystu Sævars Helga Bragasonar og Eddu Aradóttur framkvæmdastýru Carbfix í beinu streymi sem má nálgast hér. Kynningarfundur Carbfix í Hafnarfirði 14. febrúar 2022

2023 - Yfir 150 gestir sóttu opinn kynningarfund Carbfix um loftslagsverkefnið Coda Terminal í Straumsvík, sem haldinn var þriðjudaginn 25. apríl í Bæjarbíói, Hafnarfirði. Þetta var þriðji opni kynningarfundurinn um verkefnið og annar íbúafundurinn í Hafnarfirði, en gert er ráð fyrir að þeir verði haldnir a.m.k. árlega. Hér má finna frétt annarsvegar og hinsvegar link á streymi fundarins.

Umhverfismat Coda Terminal

Umhverfismat Coda Terminal stendur nú yfir. Á auglýsingatíma umhverfismatsskýrslunnar verður haldinn opinn kynningarfundur um umhverfismatið og niðurstöður þess.

Umhverfismat Coda Terminal

Umhverfismat framkvæmdarinnar er unnið í samræmi við lög 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Coda Terminal fellur undir tölulið 3.18, niðurdælingarsvæði fyrir koltvísýring (CO2) í jörðu, sem og tölulið 10.19, vinnsla grunnvatns eða í veita vatns í grunnvatn með 300 L/s meðalrennsli eða meira á ári, í 1. viðauka laganna. Þess konar framkvæmdir eru í flokki A sem þýðir að þær eru ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum.

Hvað er verið að meta í umhverfismati Coda Terminal?

Umhverfismatsskýrslan tekur til umhverfisáhrifa frá því að tekið er við CO2 frá skipum í Straumsvík, og þangað til að því hefur verið dælt niður í berglög til steinrenningar. Í umhverfismatsskýrslunni er lagt mat á áhrif framkvæmdarinnar á eftirfarandi umhverfisþætti:

  • Geymslugeymir
  • Loftslagsáhrif
  • Staðbundin loftgæði
  • Grunnvatn
  • Jarðmyndanir
  • Vistgerðir
  • Jarðskjálftavirkni
  • Landslag og ásýnd
  • Menningarminjar
  • Verndarsvæði og náttúruminjar
  • Samfélag
Matsvinnan
  • EFLA verkfræðistofa fer með umsjón matsvinnunnar. Verkefnisstjórn matsvinnunar annast Ragnhildur Gunnarsdóttir fyrir hönd EFLU.
  • Vatnaskil framkvæmir líkangerð og greiningu á grunnvatnsauðlindinni á áhrifassvæði framkvæmdarinnar og metur möguleg áhrif af fyrirhugaðri vatnsvinnnslu.
  • ÍSOR hefur verið fengið til ráðgjafar um staðsetningu niðurdælingarhola, auk líkangerðar á jarðfræði svæðisins. ÍSOR sér einnig um vöktun á jarðskjálftaneti í tengslum við verkefnið.
Hvað gerist að umhverfismati loknu?

Umhverfismat veitir ekki heimild til framkvæmda. Það er fyrst og fremst til þess fallið að leggja mat á möguleg umhverfisáhrif framkvæmdar áður en sótt er um þau leyfi sem framkvæmdin er háð. Coda Terminal er til að mynda háð eftirfarandi leyfum:

  • Framkvæmdaleyfi, gefið út af Hafnarfjarðarbæ
  • Starfsleyfi til geymslu, gefið út af Umhverfisstofnun
  • Nýtingarleyfi, gefið út af Orkustofnun
  • Losunarleyfi, gefið út af Umhverfisstofnun

Nánari upplýsingar um umhverfismat Coda Terminal og niðurstöður þess verða birtar hér þegar umhverfismatsskýrsla liggur fyrir.