Hoppa yfir valmynd

Edda Sif Pind Aradóttir

Framkvæmdastýra Carbfix

Edda lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2001 og BS-prófi í efnaverkfræði frá Háskóla Íslands 2004. Edda stundaði fræðilegar rannsóknir á málmum hentugum til vetnisgeymslu í MS-námi sínu við HÍ, sem hún lauk árið 2006. Sama ár hóf hún doktorsnám við sama skóla í samstarfi við Lawrence Berkeley-rannsóknarstofnunina í Kaliforníu. Hún lauk doktorsnámi árið 2011. Á rannsóknarferli sínum hefur Edda hlotið fjölda styrkja og stýrt stórum samstarfsverkefnum sem meðal annars eru styrkt af rammaáætlun ESB um orkumál.

Stjórn Carbfix hf.

Nana Bule

Stjórnarformaður

Nana Bule hefur yfir 20 ára reynslu sem stjórnandi í tæknigeiranum þar sem hún hefur leitt umbreytingu og vöxt. Hún var forstjóri Microsoft í Danmörku og á Íslandi þar til fyrr á þessu ári og starfar nú sem ráðgjafi hjá Goldman Sachs. Hún er formaður stjórnar danska ráðsins um stafræn málefni og leiðir starfshóp danskra stjórnvalda um endurnýjanlega orku. Hún situr í stjórnum Energinet, Arla Foods og Novo Nordisk Foundation.

Dr. Brynhildur Davíðsdóttir

Dr. Brynhildur Davíðsdóttir er prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur yfir 20 ára reynslu af kennslu, rannsóknum og ráðgjöf þar sem hún hefur m.a. lagt áherslu á orkuskipti, sjálfbærnimat og mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum. Hún er varaformaður Loftslagsráðs og situr í stjórn Arctic Circle Foundation. Hún sat í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur árin 2011-2022, síðustu sex árin sem stjórnarformaður.

Tómas Már Sigurðsson

Tómas er forstjóri HS Orku. Hann starfaði áður í 16 ár fyrir Alcoa, m.a. sem forstjóri Alcoa á Íslandi, forstjóri Alcoa í Evrópu og Mið-Austurlöndum og aðstoðarforstjóri Alcoa á heimsvísu. Hann hefur verið formaður Verslunarráðs og setið í stjórnum Samtaka iðnaðarins, Europe Aluminium, Eurometaux og Business Europe.

Elín Smáradóttir

Elín starfar sem yfirlögfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur en hún útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1994 og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996. Elín starfaði hjá Skipulagsstofnun á árunum 1994-2003 og síðan hjá Orkustofnun til ársins 2008 þegar hún gekk til liðs við OR.