Hoppa yfir valmynd

06.12.2022

Viljayfirlýsing um uppbyggingu kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík

Grunnur lagður að nýrri atvinnugrein sem byggir á íslensku hugviti og tækni. Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto á Íslandi undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um uppbyggingu kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal. Með verkefninu er lagður grunnur að nýrri atvinnugrein hérlendis sem byggir á íslensku hugviti og getur orðið að mikilvægri útflutningsgrein auk þess að styðja við loftslagsmarkmið Íslands. Ráðgert er að fyrsti áfangi stöðvarinnar taki til starfa 2026 og að hún nái fullum afköstum árið 2031. Fullbyggð mun stöðin geta tekið á móti og bundið um 3 milljónir tonna af CO2 árlega, sem samsvarar meira en helmingi af árlegri losun Íslands.

Eitt vænlegasta stóra loftslagsverkefni Evrópu  

Markmið um að hemja hlýnun jarðar við 1,5 gráður munu vart nást án umfangsmikillar föngunar og förgunar á CO2. Carbfix hefur þróað tækni sem hermir eftir og flýtir náttúrulegum ferlum til bindingar á CO2 í jarðlögum, sem felur í sér því er blandað í vatn og kolsýrðu vatninu („sódavatninu“) dælt niður í basaltberglög, þar sem CO2 gengur í efnasamband við málma í berginu og breytist varanlega í steindir. Aðferðinni hefur verið beitt með góðum árangri á Hellisheiði allt frá árinu 2012 og hefur hún vakið heimsathygli.

 Coda Terminal stöðin verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Verkefnið hlaut fyrr á árinu viðurkenningu sem eitt vænlegasta stóra loftslagsverkefni í Evrópu með úthlutun á um 16 milljarða króna styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópu, eftir ítarlega rýni á vegum sjóðsins. Það er tæplega þriðjungur af áætluðum heildarkostnaði við verkefnið. 

 Í verkefninu felst að þróa skilvirkar flutningsleiðir fyrir CO2 allt frá föngun í Evrópu til niðurdælingar í Straumsvík. Á Íslandi eru kjöraðstæður til varanlegrar, umhverfisvænnar, hagkvæmrar og öruggrar kolefnisförgunar með Carbfix aðferðinni, en helstu forsendur hennar eru að til staðar séu CO2, vatn og hentug jarðlög.

 Stöðin verður einnig hagkvæm leið fyrir íslenska aðila til að minnka kolefnisfótspor sitt. Rio Tinto á Íslandi er í þessum hópi og mun vinna að því að fanga CO2 frá álverinu til förgunar á staðnum. Yrði það í fyrsta skipti sem tækist að farga varanlega CO2 frá álveri og yrði það mikilvægt skref í átt að kolefnishlutleysi 2040.

Í nóvember hóf Carbfix rannsóknarboranir á lóð Rio Tinto á Íslandi við Straumsvík með það fyrir augum að auka þekkingu á jarðlögum á svæðinu og fá nákvæmari upplýsingar um aðstæður til varanlegrar bindingar á CO2 í jarðlögum með Carbfix tækninni. Matsáætlun vegna umhverfismats framkvæmdarinnar var nýlega skilað inn til Skipulagsstofnunar. 

Tímamótaverkefni

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar: “Það er áhugavert að fylgjast með framvindu og þróun verkefnisins og við fögnum því að stöðinni hafi verið fundin staðsetning í Hafnarfirði. Ef allt gengur að óskum mun framkvæmdin ekki bara skila mikilvægum umhverfislegum ávinningi heldur einnig nýjum fjölbreyttum störfum í Hafnarfirði og opna á enn frekari nýsköpun, hugvit og tækni í bæ sem hýsir þegar fjölda tæknifyrirtækja. Tækifærin eru mikil en Hafnarfjarðarbær mun leggja áherslu á að veittar verði ítarlegar upplýsingar og gott samráð haft við íbúa, fyrirtæki og aðra í bæjarfélaginu í gegnum allan feril framkvæmdarinnar.”

 

Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix: “Nýjustu sviðsmyndir sýna að loftslagsmarkmiðum heimsins verður vart náð án umfangsmikillar föngunar og förgunar á CO2. Við höfum þróað hagkvæma, varanlega og umhverfisvæna leið til þess og beitt henni með góðum árangri á Hellisheiði í tíu ár. Coda Terminal er stærsta verkefni okkar til þessa og mun marka tímamót, ekki bara fyrir þau sem koma beint að verkefninu heldur fyrir loftslagsaðgerðir á Íslandi í stærra samhengi, ásamt efnahagslegum ávinningi af tugmilljarða fjárfestingu. Gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftinu virða engin landamæri og samstarf þvert á þau er algjör forsenda þess að loftslagsmarkmiðin náist. Samhliða frekari frumkvöðlastarfsemi innan Coda Terminal höldum við áfram að vinna að því að hasla Carbfix aðferðinni völl á fleiri stöðum í heiminum, enda er mikil eftirspurn eftir innleiðingu og uppbyggingu hagkvæmra, varanlegra og öruggra loftslagslausna eins og þeirrar sem við bjóðum.”

 

Grettir Haraldsson, stjórnarformaður Coda Terminal: „Undirritun þessarar viljayfirlýsingar er mikilvægt skref í átt til þess að Íslendingar leggi þungt lóð á vogarskálarnar í þágu heimsbyggðarinnar allrar í baráttunni við að stemma stigu við loftslagsbreytingum.” 

 

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi: “Góður árangur hefur náðst á undanförnum árum við að draga úr losun frá ISAL og kolefnisfótspor fyrirtækisins er nú þegar með því lægsta sem þekkist í áliðnaði. Ef metnaðarfull markmið okkar um kolefnishlutleysi 2040 eiga að nást þarf hins vegar að stíga afgerandi skref. Föngun og förgun CO2 með Carbfix tækninni í Coda Terminal er einn slíkur möguleiki og þess vegna skrifaði Rio Tinto undir samstarfsyfirlýsingu við Carbfix í fyrra. Tilraunir eru þegar hafnar við föngun á CO2 frá starfseminni og stefnum við ótrauð á að verða fyrsta álverið í heiminum sem nær að fanga og farga varanlega hluta af kolefnislosun sinni.”

Linkur að viljayfirlýsingu hér.  

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.